20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er vitanlega rétt hjá hv. þm. Snæf., að nú er ekki fé til, svo að hægt sé að leggja út í framkvæmdir þær, er frv. gerir ráð fyrir. Ríkisstj. hefir ekki treyst sér til þess að leggja til í fjárl., sem fyrir þessu þingi liggja, að upphæð verði veitt í því skyni að byrja á þessum framkvæmdum. Samt lít ég svo á, að það hafi mikla þýðingu, að nú verði tekin ákvörðun í þessu máli. Það er t. d. mikilsvert fyrir vegamálastjóra að geta haft hliðsjón af þeirri ákvörðun hvað snertir viðgerðir á Hellisheiði. Þá hefir það ekki svo lítið að segja, að frá Alþingi liggi fyrir skýlaus ákvörðun um lausn þessa samgöngumáls, sem svo mikið hefir verið deilt um. Ég legg sem sagt miklu áherzlu á það, að þetta mál fái góða afgreiðslu; og lít líka svo á, að þarna sé um að ræða mjög forsvaranlega lausn þessa samgöngumáls, og það lausn, sem sýnilegt er, að vex okkur ekki yfir höfuð í framkvæmd. Þar að auki hefir þetta frv. að baki sér álit vegamálastjóra, sem hefir lagt mikla vinnu einmitt í þetta mál. Þótt féð sé ekki fyrir hendi nú, er mikil þörf á því, að þetta frv. verði samþ., og því fyrr, því betra.