15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

18. mál, próf leikfimi- og íþróttakennara

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Eins og nál. ber með sér, hefir menntmn. orðið ásátt um að mæla með þessu frv. með allverulegum breyt., sem ég kem síðar að. N. telur, að eins og íþrótta- og leikfimikennslu er nú komið í landinu, sé rétt, að ríkið taki upp eftirlit með henni, eins og annari kennslu, og geri ákveðnar kröfur til þeirra manna, sem hana hafa á hendi. Engin ákvæði eru um það í l. nú, hverskonar próf leikfimikennarar þurfi að hafa. Skilningur hefir aukizt mjög á því á undanförnum árum, hverja þýðingu kennsla í leikfimi og íþróttum við skólana hefir, og þá jafnframt á því, að þeir, sem þetta kenna, þurfa ekki síður að hafa skilning á uppeldi og þekkingu í sinni grein heldur en kennarar í öðrum greinum. Það getur jafnvel haft spillandi áhrif og skaðleg, ef þeir eru ekki færir um að gegna starfi sínu.

N. mælir því einróma með því, að slíkt eftirlit og prófskilyrði séu sett leikfimikennurum við ríkisskólana og þá skóla, sem ríkið styrkir, sem frv. fer fram 5. Þó leggur n. til, að gerð sé talsverð breyt. á formshlið frv., að í stað 2. gr. komi tvær gr., og felst þar jafnframt í ofurlítil efnisbreyting.

N. leggur til, að skipuð sé prófnefnd til að dæma um kunnáttu þeirra manna, sem starfa vilja sem fimleika- og íþróttakennarar. Skal hún einnig skera úr um, hvort leikfimikennarar, sem hafa skírteini frá útlöndum um nám í þeim greinum, sem kunnátta er heimtuð í, skuli ganga undir próf að einhverju eða öllu leyti, eða hvort þau prófgögn, sem þeir hafa áður aflað sér, skuli tekin gild og talin fullnægjandi.

Prófnefndin á einnig samkv. till. n. að geta veitt fimleikakennurum undanþágu frá að taka próf í hverri einstakri grein, sem frv. setur að skilyrði, að þeir taki próf í, ef vitanlegt er, að þeir hafi lært nægilega mikið í þeirri grein annarsstaðar. T. d. er fyrirskipað, að nemendur í kennaraskólanum læri uppeldisfræði. Er því ekki ástæða til að láta menn, sem lokið hafa prófi þaðan, ganga aftur undir próf í þeirri grein. Og þannig getur verið um fleiri greinar, að menn hafi lært þær og tekið fullnægjandi próf í þeim annarsstaðar.

N. þótti rétt að bæta inn í frv. ákvæði um, hvernig haga skuli kostnaðinum við fyrirhugaða prófnefnd, til þess að á því geti ekki leikið vafi og menn þurfi ekki að óttast, að óeðlilegan kostnað leiði af henni. Er því tekið fram í brtt., að prófnefndarmennirnir skuli fá þóknun eftir sömu reglum sem prófdómendur við ríkisskólana.

Einnig er nefnd þessari samkv. brtt. veitt heimild til að taka tvo sérfræðinga í þeim greinum, sem prófa á í, sér til að stoðar, þar sem ekki er við því að búast, að nefndarmennirnir þrír hafi sérfræðiþekkingu í þeim öllum.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara nánar út í nál. og brtt. n., þar sem hv. þm. munu vera búnir að kynna sér þær.