04.03.1932
Efri deild: 20. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

9. mál, brúargerðir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. þm. Snæf. benti réttilega á það, að flestar þær brýr, sem hv. Ed. setti inn í frv. á sumarþinginu, eru teknar upp í þetta frv. Út af þessu þykir mér rétt að taka það fram, að í frv. eru einungis tvennskonar brýr, annarsvegar endurbygging og nýbygging brúa á þjóðvegum og hinsvegar brýr yfir stórvötn á öðrum vegum en þjóðvegum, og eru hinar síðarnefndu taldar upp í IIl. kap. frv. Það er nú auðvitað mál, að ríkið á að kosta að öllu brýr á þjóðvegunum, en að hve miklu leyti því ber að kosta aðrar brýr, er nokkurt álitamál. Hér í frv. er sú leið farin að ætla ríkinu að kosta að öllu leyti brýr á nokkrum stórvötnum utan þjóðvega. Upphaflega voru 9 slíkar brýr í frv., en eru nú orðnar 13 talsins. Nú ber þess að gæta um brýr þær, er hv. þm. Snæf. vill fá teknar upp í frv., að þær tilheyra hvorugum þessum flokki, eru sem sé ekki á þjóðvegum né yfir stórvötn, og ég ætla, að þær, eða a. m. k. önnur þeirra sé mjög ódýr. Hitt skal fúslega játað, að þessi vegur, sem brýrnar eru á, ætti að verða tekinn upp í þjóðvegatölu. Ég verð þó eins og sakir standa nú að leggjast á móti því, að þessar brýr verði teknar inn í frv., því að ef ætti að taka upp í þetta frv. brýr á væntanlegum þjóðvegum, þá þýddi það eitt af tvennu: annaðhvort yrði frv. óskapnaður eða það yrði drepið. Ég viðurkenni, að ríkið ætti að kosta að öllu bygging þessara tveggja brúa og annara, sem líkt stendur á um, en þó einungis með þeim fyrirvara, að vegirnir verði fyrst teknir upp í þjóðvegatölu. Annað er ekki hægt vegna annara brúa.

Um brtt. á þskj. 93 þarf ég ekki að fjölyrða, þar sem hún hefir verið tekin aftur til 3. umr., en það er sjálfsagt, að n. athugi tillöguna.