04.03.1932
Efri deild: 20. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

9. mál, brúargerðir

Halldór Steinsson:

Ég skil ekki afstöðu hv. frsm. í þessu máli, eða a. m. k. virðist hann hafa skipt alleinkennilega um skoðun frá síðasta þingi. Hann játar í öðru orðinu, að ríkið ætti að kosta þessar brýr og að það sé sjálfsagt að taka þessa vegi upp í tölu þjóðvega, en á hinn bóginn er það eina ástæðan til þess, að n. leggst á móti þessu, að vegirnir eru ekki enn teknir upp í þjóðvegatölu. Ég verð nú að benda hv. þm. á það, að á sumarþinginu var hann á annari skoðun um þetta; þá hrúgaðist inn í brúarlagafrv. fjöldi brúa, sem ekki voru á þjóðvegum, og ég minnist þess ekki, að hv. þm. hafi haft neitt á móti því þá. Nú eru flestar brtt. þær, sem samþykktar voru í sumar, teknar upp hér, og ég þori að fullyrða, að þessar tvær brýr, sem ég óska að fá teknar upp í frv., eigi sízt minni rétt á sér en þær, sem annars eru í frv. Ég vona a. m. k. að hv. deild hafi ekki snúzt hugur að sama skapi og hv. frsm.