08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1933

Guðbrandur Ísberg:

Ég á hér litla brtt. á Þskj. 334, viðvíkjandi styrkveitingu til Guðmundar Ólafssonar, fyrrv. pósts á Akureyri. Guðmundur Ólafsson hefir gegnt póststarfi í 17 ár og er nú hálfsextugur að aldri. Fyrst var hann póstur milli Akureyrar og Siglufjarðar, en svo fékk hann leiðina frá Akureyri til Staðar í Hrútafirði. Ég vil taka það fram, að á fyrri leiðinni, sem ég nefndi, eru einhverjar þær verstu torfærur, sem póstar hafa þurft að stríða við. Þar er yfir þrjár háar heiðar að fara. Fyrst er Reykjaheiði, milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, og er það góður 8 tíma gangur fyrir lausan mann. Yfir þessa heiði er ekki hægt að koma hestum nema stuttan tíma að sumarlagi; allan annan tíma árs varð að bera póstinn á bakinu yfir heiðina. Og þetta er ekki eina torfæran. Milli Ólafsfjarðar og Fljóta er önnur álíka heiði, og þá er Siglufjarðarskarð ekki auðveldasti spölurinn. Þeir, sem hafa hugmynd um erfiðleikana við að bera þunga bagga yfir erfiða fjallvegi, vita, að menn eru ekki óskemmdir af því. Hin leiðin, frá Akureyri að Stað, er ekki eins erfið; þar er oftastnær hægt að nota hesta, svo að ekki þarf að bera bréf og blöð á bakinu. Þó má benda á, að allt fram á síðustu ár hefir þessi leið ekki verið sem greiðfærust. Þar eru illfærar heiðar og óbrúuð stórvötn, svo sem Héraðsvötn, Víðidalsá, Vatnsdalsá og Miðfjarðará. Það lætur því að líkindum, að maður, sem hefir í mörg ár verið póstur á þessum leiðum, hafi mætt mörgu misjöfnu og jafnvel lent í lífsháska oftar en einu sinni.

Ég vil ennfremur henda á, að í 18. gr. fjárlaganna er tekinn upp styrkur til margra pósta, og það meira að segja manna, sem ekki hafa haft það sem sitt aðalstarf, og því ekki gengið frá eins skertir að þreki um aldur fram eins og þessi maður. Eins og þegar hefir verið minnzt á, er Guðmundur Ólafsson nú hálfsextugur og bláfátækur. Starf hans hefir með öllu verið óaðfinnanlegt, enda hefir hann beztu meðmæli frá póstmálastjórninni.

Ég mun ekki orðlengja þetta frekar, en vona, að hv. dm. sjái, hvað þetta er mikil sanngirniskrafa, og verði því vel við henni.