09.03.1932
Efri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

9. mál, brúargerðir

Magnús Torfason:

Ég get verið þakklátur hv. 1. landsk. fyrir hans góðu undirtektir við till. mína, en að því er brúarstæðið snertir, vil ég ennfremur upplýsa það, að þm. Árn. í Nd. hefir geri ráð fyrir, að brúin verði sett á þessum stað, í till. þeim, sem hann hefir borið fram til breytinga á vegal. Hefir það komið í ljós, að þessi leið er heppilegri en sú, sem við hugsuðum okkur upphaflega; bæði betra um að ná í ofaníburð og auk þess styttra á Flóabrautina. — Að því er lengd brúarinnar snertir, þá skýtur þar allskökku við hjá vegamálastjóra, enda er þetta lausleg áætlun, og telur hann sennilega landbrýr með. Maðurinn, sem ég bar fyrir mig í þessu efni, hafði sína áætlun eftir mætum og gagnkunnugum manni þar austur, svo að ég ætla, að hún verði ekki rengd. — Ég skal að lokum geta þess, að ég get vel fallizt á, að till. mín komi inn í frv. á eftir brúnni hjá Iðu. Það skiptir engu máli, hvort byrjað er ofan eða neðan frá.