28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

9. mál, brúargerðir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. hefir tekið þeim breyt. í Nd., að úr því hafa verið felldir þeir viðaukar, sem komust inn í það hér í þessari d., og liggur frv. því eins fyrir nú og það upphaflega var frá hendi vegamálastjóra, er það var lagt fyrir þingið.

Ég sé, að hér liggja fyrir tvær brtt. á þskj. 543 og 547, þar sem lagt er til, að upp í frv. verði aftur teknar þær brýr, sem hér voru áður samþ. og felldar voru úr frv. í Nd., og standa sömu menn að þessum till. og áður. Vil ég taka það fram, að við hv. 2. þm. S.-M., sem skipum meiri hl. í samgmn. í þessu máli, ráðum deildinni eindregið frá að samþykkja þessar till., eins og við enda einnig gerðum, þegar málið lá hér fyrir áður. Frv. virðist muni geta orðið að miklu liði eins og það er, ef það nær fram að ganga, og er því ekki rétt að vera að hrekja það milli deilda, enda þá nokkur hætta á því, að málið dagi uppi eða verði jafnvel fellt. Um þessar brtt. er og það að segja, að þótt nokkur dráttur verði á því, að umræddar brýr komist í brúarlögin, þarf sá dráttur ekki að verða því til hindrunar, að þessi mannvirki komist jafnskjótt í framkvæmd fyrir því, en það eru þó litlar líkur til þess, að ráðizt verði í þessar framkvæmdir á næstu árum, en hinsvegar sennilegt, að ekki liði mörg ár þar til nýjum brúm verður bætt í brúarlögin, og þá mundu þessar brýr koma með, enda þetta þá betur undirbúið. Með því að samþykkja þessar brtt. er frv. hinsvegar stefnt í tvísýnu, eins og ég áður sagði, og þar sem ekki eru líkur til þess, að það muni tefja fyrir þessum mannvirkjum, þótt þau séu ekki tekin í brúarlögin nú, vildi ég því eindregið ráða d. til þess að fella þessar till.