15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Magnús Torfason:

Um þetta síðasta atriði, niðurfelling á sérstökum trúnaðarmönnum fyrir sveitarfélögin, þá vil ég ekki segja, að þar sé svo miklu sleppt. Ég hefi aldrei heyrt orð í þá áttina, að þeirra væri saknað.

Ég skal heldur ekki dæma um það, hve vel sé gengið frá frv. Það ætti þó varla að vera slíkt handahófsverk, að ekki megi við það una, þar sem lögin voru til áður og hér er aðeins um einstakar breytingar að ræða.

En ég vil sérstaklega vekja athygli á því — út af því sem rætt hefir verið hér um endurtryggingarnar og áhættu félagsins sjálfs —, að mér virðist, að með lítilli breyt. á 7. gr. þurfi ekkert að óttast í því efni. Í upphafi 7. gr. segir: „Félagið leitar endurtryggingar“ o. s. frv. Ef í stað þess er sagt: „Félagið skal leita“ o. s. frv., þá er þar með sagt, að félagið getur leitað meiri endurtrygginga, ef því svo sýnist. Að því er þetta atriði snertir, þá er leitt, að hér eru ekki fyrir hendi skýrslur um áhættu þá, er fylgir þessum endurtryggingum. Mér er ókunnugt um það, hvort slíkar skýrslur eru til, en ef n. gæti náð í þær, til að geta betur áttað sig á því, hvað í húfi er, held ég, að það væri ástæða til þess að taka málið út af dagskrá og fresta umr., þar til málið er betur athugað.