15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég get tekið undir með hv. 1. landsk. Mér er kunnugt um það, að sérfræðingur í þessari grein hefir töluvert við frv. að athuga. Hann hefir einmitt eitthvað um það fjallað, en þess er þó ekki neitt getið í grg. frv., en hv. frsm. drap víst lauslega á það, en gat ekki hins, að þessi sérfræðingur er frv. ósammála í verulegum atriðum. Í því sambandi skal ég sérstaklega geta um eitt atriði, þar sem breytt er. frá fyrri stefnu. En það er ákvæðið um, að félagið hafi ótakmarkaða heimild til að tryggja lausafé, hvort sem endurvátrygging á því fæst eða ekki. Áður voru ströng ákvæði um sjálfsábyrgð, endurtryggingu o. fl., en nú er öllu þessu sleppt. Það virðist vera svo, að það sé aðeins gróðahugsun, sem liggur á bak við samningu frv., en sárálítið hugsað um áhættuna. Með lausafé eru taldar verzlunarvörur. Er þó allundarlega að orði komizt, þar sem gera skal skrá yfir lausaféð, verzlunarvörur þar með taldar. En yfir þær er vitanlega ekki hægt að gera skrá, sem stenzt stundinni lengur.

Þessi sérfræðingur, er ég gat um, telur sig ósamdóma því, að rétt sé, að brunabótafélagið hafi slíkar ótakmarkaðar tryggingar með höndum, þar sem áhættan fyrir ríkið og þá, sem samábyrgir eru samkv. frv., yrði allt of mikil. Af þessum ástæðum get ég tekið undir till. hv. 1. landsk. um, að frv. sé fengið sérfræðingi í hendur til umsagnar.