19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

0716Frsm. (Halldór Stefánsson):

Fyrir hönd n. hefi ég ekki annað að segja en það, sem stendur í nál. Frv. Þetta hefir legið fyrir 2 síðustu þingum og í bæði skiptin hefir það verið lagt fyrir neðri deild og hefir komizt það lengst að verða samþ. hér í deildinni. Hefir það svo lent í þeim flokki málanna í Ed., sem ekki hafa verið afgr. Nú var það lagt fyrir hv. Ed., og fekk fjhn. þar það til meðferðar. Hún fékk aftur sérfróðan mann í tryggingarmálum til þess að athuga ráð með sér. Var því breytt í Ed. um minniháttar atriði og ekki að öllu leyti til bóta, en heldur sér í aðalatriðunum, sem mestu máli skipta, og var afgr. með shlj. atkv.

Eins og hv. dm. munu hafa tekið eftir, þá er komin fram brtt. við frv. á þskj. 413, þess efnis, að ákveða skuli, að brunabótasjóðir sveitafélaga skuli verða þeirra eign og þá megi ekki skerða án samþykkis sýslunefndar. Ég veit nú ekki, hvort flm. og aðrir dm. hafa athugað, að eins og frv. er nú, er beinlínis ætlazt til, að brunabótasjóðir sveitarfélaganna verði þeirra eign. Brtt. er því óþörf hvað þetta snertir. Hitt atriðið, að ekki megi skerða sjóðina nema með samþykki sýslunefnda, hygg ég, að einnig megi teljast óþarft, vegna þess, að svo mun ákveðið í sveitarstjórnarlögunum, að sveitarfélögin megi ekki skerða eignir sínar eða innstæðufé nema með samþykki sýslunefndar. Það er því algerlega óþarft að hrekja málið á milli d. vegna brtt. þessarar. En það gæti beinlínis orðið til þess, að það næði ekki fram að gegna á þessu þingi, því að eins og kunnugt er liggur fjöldi mála fyrir þinginu, og er því ekki hægt að vita, hvað af þeim verður afgr., ef á annað borð er farið að hrekja þau á milli deilda, og það algerlega að óþörfu. Ég vil því leyfa mér að fara fram á það við hv. flm brtt. þessarar, að þeir taki hana aftur, þar sem hún verður að teljast óþörf eða a. m. k. þýðingarlítil.