19.02.1932
Efri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jakob Möller [óyfirl.]:

Út af því, sem hæstv. ráðh. svaraði um skipun skilanefndarinnar, hefi ég litlu að svara. Það var ekki mín meining að véfengja hæfileika Svafars Guðmundssonar á hans sviði. En ég vil slá því föstu, að hann hafi aldrei komið nálægt því starfi, sem hann þarf að inna af hendi sem skilanefndarmaður Síldareinkasölunnar. Ég skil vel, að hæstv. forsrh. persónulega hafi borið mikið traust til þessa manns. En það þurfa fleiri að bera traust til skilanefndarinnar, og til þeirra átti hæstv. ráðh. líka að taka tillit. Tilraun til þess gat hann gert, þótt hann skipaði Svafar í nefndina, með því að skipa í hana þriðja manninn, einhvern, sem er kunnugri síldarsölu og síldarútgerð.

Annars furðar mig dálítið á þeim umr., sem hér hafa farið fram. Þegar frv. þetta er borið fram, hlýtur það að liggja til grundvallar, að stj. hafi orðið fyrir vonbrigðum um það skipulag, sem búið er að reyna. En nú hafa þeir hv. 2. þm. Eyf. og hv. 2. landsk. þm. haldið því fram, að skipulagið væri til bóta, um það yrði ekki deilt. Mér skilst því, að hv. 2. þm. Eyf. geti ekki verið sammála stj. sinni í þessu máli. Ef skipulagið væri gott, þá ætti auðvitað að halda því. Þó viðurkennt sé, að mikið tap hafi orðið á rekstri einkasölunnar síðasta ár, þá réttlætir það ekki, að hún sé lögð niður, ef vitanlegt væri, að skipulagið væri til bóta. Ég lít því svo á, að með framburði þessa frv. viðurkenni hæstv. stj., að einkasalan hafi ekki reynzt eins vel og hún gerði sér vonir um, og þess vegna sé hún nú fallin frá því skipulagi. Hæstv. forsrh. virðist þó enn ekki ákveðinn í þessu efni. Enn var hann með þá kenningu, að sjávarútvegsmenn þurfi að læra af bændum að nota mátt samtakanna og skipuleggja atvinnu sína og verzlun.

Hv. 2. þm. Eyf. var að tala um, að ég væri skemmra kominn á braut skilnings og þekkingar á þessu máli heldur en ýmsir af flokksbræðrum mínum. Ég játa það fúslega, að ég er algerlega mótfallinn einkasölu á síld; ég hefi alltaf verið það. Ég var líka á móti skipulaginu frá 1926, og gerði ég grein fyrir því þá.

Hæstv. ráðh. talaði um einkasöluna sem lögþvingaða samvinnu. Hæstv. stj. hefir þannig tekið sér fyrir hendur að knýja síldarútvegsmennina til þeirrar skólagöngu hjá samvinnumönnum, sem þeir eru oft að tala um. Hver hefir svo reynslan orðið? Hvort hefi ég haft réttara fyrir mér, eða hinir, sem komu skipulaginu á, en hverfa nú frá því og dæma það þar með óhæft? Hér er sjón sögu ríkari.

Um afkomu síldarútvegsins undir einkasölufyrirkomulaginu, samanborið við það, sem verið hefði án þess, er ég á öðru máli en hv. 2. landsk. og hv. 2. þm. Eyf. þeir, sem verzluðu með síld á undan einkasölunni, urðu að vísu stundum fyrir miklum töpum. En þeir greiddu líka fullt verð fyrir síldina, þeim, sem veiddu hana. En þótt Síldareinkasalan hefði ekki greitt einn eyri fyrir síldina síðasta ár, hefði hún samt tapað. Þetta er hinn mikli munur á ástandinu nú og áður en einkasalan var stofnuð.

Hv. 2. landsk. kvað sér ekki ljóst, hvað ég ætti við með því að tala um að færa áhættuna við síldarverzlunina yfir á útlendinga; minntist hann í því sambandi á leppa. Það má auðvitað kalla þetta leppmennsku eða hvað sem vera vill. mér finnst ekki undan neinu að kvarta, ef menn selja síldina vel og losna líka við áhættuna, hvað sem mönnum þóknast að kalla það. Ríkinu hlýtur að vera það hagkvæmt, og það bar ekki mikið á, að útlendingar, sem síldina keyptu, yrðu að gefast upp fyrir töp.

Það er vitanlegt, að síldarmarkaðurinn er takmarkaður. Þess vegna var líka eitt höfuðmarkmið Síldareinkasölunnar að afla þeirra markaða. Einnig í því hefir einkasalan brugðizt vonum manna. Það eina, sem gert hefir verið í því að afla nýrra markaða í tíð einkasölunnar, var gert vegna sérstaks áhuga eins einstaklings; það, sem áunnizt hefir, sem er því miður mjög lítið, er því ekki skipulaginu að þakka.

Hv. 2. þm. Eyf. leiddi það af orðum mínum, að ég vildi láta allt reka á reiðanum og fara eins og verkast vildi um síldarmálin. Það er af því, að ég treysti betur útsjón og framtaki einstaklinganna til að sjá þeim borgið heldur en lögbundnu skipulagi, sem heftir einstaklingsframtak að miklu leyti. Og á þeirri skoðun finnst mér það hljóta að hyggjast, að einkasalan var lögð niður og þetta frv. borið fram.