18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jón Baldvinsson:

Það gekk svo snöggt með 2. umr. þessa máls, að umræður urðu engar og var málið svo afgr. til 3.umr.

Aths. mínar hér um eru almenns eðlis. Við 1. umr. spurði ég hæstv. atvmrh., hvað koma ætti í stað Síldareinkasölunnar. Voru svör hans ekki greið, og vænti ég þeirra greinilegri síðar. Enn hefir ekki bolað á neinum till. um það, hvað hér ætti að koma í staðinn fyrir einkasöluna. Veit ég ekki, hvort hv. n. hefir athugað þetta, og vil ég hér með spyrja hv. frsm., hvort eitthvað hafi komið fram í þessu máli. Þótt gallar hafi verið á Síldareinkasölunni, tekur ekki betra við, þegar þau lög eru numin úr gildi. 1927 var allt enn í öngþveiti, og lýsti Björn heitinn Líndal ástandinu svo á þingi, að illt hefði verið í hitteðfyrra, verra í fyrra og útlit væri fyrir, að versna myndi í ár. Þetta var meðan frjálsa samkeppnin réð í þessum málum, sama ástand og búast má við að sumri. Veit ég reyndar ekki vel, hvað gera átti, til þess að koma lagi á síldarverkunina. Sala á kryddsíld var svo að segja eingöngu í höndum Síldareinkasölunnar. Var markaður betri fyrir þessa vöru en almenna síld og verð hærra. nú býst ég við, að yfirráð hér um fari aftur til útlendinga, helzt þá Svía, sem munu láta menn sína kaupa hér upp síld fyrir það verð, er heim sýnist. Mun þá verða sem oft áður, að hafi ekki verið borgað út í hönd, hefir ekkert verið af þeim að hafa. Má koma í veg fyrir slíkt með því að halda sér að þeirri takmörkun á síldarsöltun, sem áður var í lögum Síldareinkasölunnar, en það getur ekki orðið, þegar þessi lög eru fallin niður.

Væri fróðlegt að vita, hvað hæstv. stj. ætlar sér að gera í þessum málum hér á þingi og hvernig hagur Síldareinkasölunnar stendur.

Þriðja atriðið, sem ég vildi fá upplýst, er um kröfur þær, sem ýmsir síldareigendur á Norðurlandi hafa gert til Síldareinkasölunnar um greiðslu úr búinu á andvirði síldar, sem þeir töldu ekki beinlínis heyra undir Síldareinkasöluna og bjuggust við, að greitt yrði.

Menn hafa rætt margar leiðir til þess að koma á betra fyrirkomulagi við síldarsöltun, svo að Ísland missti ekki þann markað fyrir kryddsíld, sem það hefir þegar aflað sér. Ein er sú, að setja niður einskonar útflutningsnefnd, er hefði leyfi til að takmarka söltunina. Er nú orðið nokkuð áliðið til þess að það gæti orðið að gagni á komandi sumri, því að margir hafa ekki búizt við þessu og gert ráðstafanir, sem koma myndu í bága við það. En þó að þessi leið sé hugsanleg, verður henni ekki fram komið, nema stjórnarflokkurinn vilji beita sér fyrir henni, því að hann er hér í meiri hluta. sá flokkur hefir hér löngum haft hönd í bagga og þeirra tilhögun var það, sem 1928 komst í gegn með Síldareinkasölunni. Vildi ég við þessa umr. fá það skýrt fram, hvað hann ætlar sér í þessu máli. Býst ég ekki við, að það verði neitt mikið, eftir undirtektum hæstv. forsrh., en einn flokksmaður hans sagði þó við 1. umr. málsins, að ekki væri óhugsandi, að eitthvað kæmi fram hér um. Sagði hann að vísu ekkert ákveðið, en svona mátti skilja orð hans. Var þetta hv. 2. þm. Eyf. Heyri ég, að hæstv. dómsmrh. eigi að svara hér til saka, enda er honum það einna skyldast, því að hann átti ekki svo lítinn þátt í fyrirkomulagi Síldareinkasölunnar.