18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér finnst langbezt fara á því, að framsóknarmenn og jafnaðarmenn tali hér yfir moldum þessa ástfósturs síns. En af því að mér fannst æfiferilslýsing sú, er hæstv. dómsmrh. gaf, ekki vera allskostar rétt, get ég ekki komizt hjá að gera nokkrar aths.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að svona hefði farið, af því að verkamenn og útgerðarmenn hefðu ekki verið því vaxnir að stjórna fyrirtækinu. En svo viturlega hefði hlutunum verið fyrir komið, að þessir tveir flokkar hefðu haft þar yfirtökin, eða undirtökin, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. Þetta er sannarlega spaugilegur heilaspuni, sem getur að vísu verið gaman að, vegna þess hve gersamlega laus hann er við að eiga nokkra stoð í veruleikanum. Allir vita, að sjálfstæðismenn voru ávallt í minni hluta í stjórn Síldareinkasölunnar, en framsóknarmenn og jafnaðarmenn í meiri hluta, og fram á síðasta ár var samvinna milli þessara flokka. En Sjálfstæðisflokkurinn var áhrifalaus í stj. einkasölunnar frá upphafi og til hins síðasta. Þetta veit hæstv. dómsmrh. ósköp vel. Hitt er skiljanlegt, að framsóknarmenn vilji nú færast undan allri ábyrgð og ekki eiga frumkvæði að nýrri „skipulagningu“. En sannleikurinn er sá, að framsóknarmenn áttu frumkvæðið að Síldareinkasölunni, eins og hún varð, sbr. frv. þeirra Ingvars Pálmasonar og Erlings Friðjónssonar. I. P. er þar fyrsti flm., svo að Framsóknarfl. á ekki aðeins frumkvæðið að hálfu leyti, heldur að mestu leyti, og auk þess eru miklar líkur til, að frv. hafi verið samið og flutt fyrir forgöngu stj. En nú hefir Framsóknarfl. séð að allt fór út um þúfur, eins og strax var það, að ekki kynni góðri lukku að stýra að taka öll ráð af þeim, sem mestra hagsmuna höfðu að gæta. Frv. 1926 fór í alveg öfuga átt, sem sé þá, að leggja stj. fyrirtækisins fyrst og fremst í hendur þessara manna, og þótt ég væri því mótfallinn, dylst mér ekki, að það bar stórum af frv. því, sem að lögum varð fyrir forgöngu Framsóknarfl.

Hæstv. dómsmrh, segir, að útkoman hafi orðið allt önnur hjá Magnúsi Kristjánssyni, er hann stýrði Landsverzluninni, en hjá fulltrúum sjálfstæðis- og jafnaðarmanna við Síldareinkasöluna. ég efast mi ekki um, að ef Síldareinkasalan hefði haft somu aðstoðu og Landsverzlunin, hefði útkoman orðið sæmileg. Landsverzlunin gat sjálf ákveðið verðið á vörum sínum, en það gat Síldareinkasalan ekki. Þetta er því ekki annað en blekking, og ef maður vissi ekki, að hæstv. ráðh. segði þetta á móti betri vitund, væri hér um óvenjulega fáfræði að ræða.

Ég held, að mér sé óhætt að lýsa yfir því f. h. Sjálfstæðisflokksins, að hann muni ekki bera fram frv. um nýja einkasölu. Hann er búinn að fá nóg af þeirri tilraun, sem gerð hefir verið og gefizt hefir þannig, að útflutningur hefir minnkað, en útlendingar aukið veiði sína svo, að við borð liggur, að þeir séu að draga þennan atvinnuveg úr höndum íslendinga, ýmsum gömlum mörkuðum verið lokað, en engum nýjum bætt við, og allt eftir þessu. Verra en þetta getur ástandið ekki orðið. Og það mun sannast, að þessi atvinnuvegur gefur meira af sér á næsta ári en í höndum einkasölunnar.