18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jón Baldvinsson:

Hæstv. dómsmrh. hefir nú flutt hér alllanga ræðu, og hefir aðalefni hennar verið að neita ábyrgð Framsóknarfl. á stofnun og endalokum Síldareinkasölunnar. Ég skal ekki fara langt út í það mál, en eins og allir vita, hélt Alþýðuflokkurinn fram öðru fyrirkomulagi 1928, er við fluttum hér frv., sem ekki fann náð fyrir augum Framsóknar. Hinsvegar var annað frv. samþ., sem hæstv. dómsmrh. segir, að gert hafi ráð fyrir samvinnu flokkanna.

Ég hygg, að stj., og þá ekki sízt hæstv. dómsmrh., hafi ráðið miklu um val manna í útflutningsnefnd Síldareinkasölunnar 1928, og að framsóknarmenn hafi ráðið miklu um val framkvæmdarstjóra einkasölunnar. Oddamaðurinn í útflutningsnefndinni var úr þeirra hóp, og með atkvæði hans gátu þeir samþ. eða synjað tillögum hinna flokkanna á víxl, og þannig ráðið eftir vild, hvorum þeirra hann skyldi fylgja. Ég neita því ekki, að samvinna væri um þetta mál í þinginu á milli Framsóknarfl. og Alþýðufl.; við AIþýðuflokksmenn töldum réttara að reyna þetta skipulag Framsóknarfl. á síldarsölunni og studdum það, þó við værum ekki ánægðir með það. En mér er nær að halda, að engin samvinna hafi verið milli flokkanna um skipun framkvæmdarstjóra einkasölunnar, heldur hafi þeir verið ráðnir samkv. einhliða ákvörðun Framsóknarfl., eða eftir samningum einstakra manna við þann flokk.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það hefði verið ósamkomulag innan Alþýðufl. um þessi mal. En það er ekki rétt, því að þar var um tvo flokka að ræða. Kommúnistar voru búnir að kljúfa sig frá Alþýðufl. 1928 og mynda sérstakan flokk, og einn af forustumönnum þeirra var ráðinn framkvæmdarstjóri við síldareinkasöluna.

Hæstv. ráðh. vek að því, að á Alþingi 1931 hefðu Sjálfstæðisfl. og Alþýðufl. verið sammála um að breyta fyrirkomuIagi á stj. einkasölunnar, og mátti draga út úr ummælum hans, að Framsóknarfl. hefði verið heim breyt. mótfallinn, en svo var ekki, ég man ekki eftir, að það kæmi nokkursstaðar fram. Það mátti ennfremur skilja á orðum hæstv. ráðh. hið sama og kom fram í ræðu hæstv. forsrh. við 1. umr. þessa máls, að samkv. þessum breyt. hefðu framsóknarmenn ekki átt að hafa áhrif á stj. einkasölunnar framvegis, og hefði það raðið miklu um afdrif hennar og örlög, sem ákveðin voru með bráðabirgðalögunum. Það er einkennilegt að heyra það, þegar Framsóknarfl. telur sjávarútveginn sér óviðkomandi, en fjöldi af bændum landsins rekur þó sjávarútveg, eins og nafnið útvegsbóndi bendir til. Ég geri ráð fyrir, að talsverður hluti bænda í landinu reki útveg, ýmist sérstaklega eða í sambandi við landbúnað. Og ólíklegt er, að flokkur, sem telur sig bændaflokk, geti haldið sig utan við útvegsmálin, þó að hæstv. dómsmrh. virðist stundum halda því fram. Af því að þessu fyrirtæki, sem hér er um rætt, síldareinkasölunni, hefir farnazt illa, þá vilja framsóknarmenn láta svo sem það hafi verið þeim óviðkomandi. En þeir geta þó ekki neitað því, að á sumarþinginu 1931 kaus Framsóknarfl. mann í útflutningsnefnd síldareinkasölunnar með öllu sínu þingfylgi, í stað fulltrúa Alþýðufl., sem gekk úr nefndinni. Það bendir til þess, að framsóknarmenn hafi viljað hafa þar yfirráð. Og mér finnst réttmætt að álykta út af orðum ráðherranna, að það hafi valdið miklu um niðurlagningu einkasölunnar, að Framsóknarfl. átti ekki að ráða þar framvegis.

Hæstv. dómsmrh. vildi halda því fram, að meðferð malanna á fundi síldareinkasölunnar síðastl. haust og kosning útflutningsnefndar, sem þar fór fram, hefðu ráðið úrslitum um, að einkasalan var lögð niður. Ég mun ekki fara út í það mál og ræða um þær kosningar, enda koma þær að líkindum ekki til framkvæmda.

Út af fyrirspurn minni til hv. stjórnarflokks um áform hans að því er snertir síldarverzlunina framvegis hefi ég ekki fengið önnur svör en þau, að flokkurinn mundi ekki eiga frumkvæði að till. um að skipuleggja síldarútveginn, en hinsvegar geti komið til mála, að hann styðji uppástungur í þá átt, ef þær koma fram. Og hv. 2. þm. Eyf. kvaðst mundu styðja till. í þeim tilgangi. Það er ekkert einkennilegt, þó að eftir þessu sé spurt, því að Alþýðuflokkurinn hefir ekkert atkvæðamagn í þinginu til þess að gera nokkuð í þessu efni, og jafnvel ekki þótt við værum í samvinnu við þann flokk, sem hæstv. dómsmrh. kallar bandamenn okkar, því að Framsóknarfl. getur fellt í þinginu það, sem honum sýnist. Hæstv. ráðh. kvaðst að vísu mundu styðja till. um að skipuleggja síldarsöluna, ef þær kæmu fram, en það eru litlar líkur til, að svo verði, gegn andstöðu Sjálfstæðisfl. og óvilja Framsóknarfl.

Það er líklegt, að næstu 2–3 árin verði þjóðin að sætta sig við það fyrirkomulag á þessu sviði, sem Björn Líndal lýsti á Alþ. 1926, þar sem eitt ríkti öðru verra, leppmennskan og óreiðan í síldarútveginum, og fór stöðugt versnandi frá ári til árs.

Enginn undrast yfir því, þó að hv. 1. þm. Reykv. mæli á móti hverskonar skipulagi á síldarútveginum. Það er í fullu samræmi við hugarfar hans. Hann var á móti frv. núv. flokksbræðra sinna, sem þeir fluttu á þinginu 1926. Hann er yfirleitt á móti öllum takmörkunum á atvinnufrelsi einstaklingsins og trúir í blindni á hið gamla slagorð liberala —einstaklingsframtakið —, sem hann fylgdi einu sinni að málum, en er nú runninn frá og inn í annan flokk. Og þannig hefir farið fyrir liberölu flokkunum um víða veröld, þeir hafa þurrkazt út eða bræðzt saman við aðra flokka.

Það er vitanlegt, að allmargir menn í Sjálfstæðisflokknum, einkum utan þings, telja nauðsynlegt að koma skipulagi á fisksöluna út úr landinu, og þeir hafa dálítið sýnt þetta í verki á þann hátt að stofna fisksölusamlög í einstökum héruðum landsins, til þess að hefta svolítið einstaklingsframtakið á þessu sviði. Í slóð þessa samlags koma svo samvinnufélögin, þó að þau verði e. t. v. ófullkomin í fyrstu.

Hv. 1. þm. Reykv. taldi vel fara á því, að Alþýðufl. og Framsóknarfl. töluðu yfir moldum Síldareinkasölunnar. Ég sé ekkert á móti því, þó að þeir flokkar geri það. En mér fannst hv. þm. ekki trúaður á það eins og skyldi, að eftir dauðann hefst upprisa og nýtt líf, að loknum þrengingum í hinu fyrra lífi.

Ég hefi með fyrirspurn minni verið að leitast fyrir hjá hinum þingflokkunum um endurreisn einhvers skipulags á síldarútveginum og sölu síldar, en hefi fengið loðin svör. Ég veit ekki, hvort það er til nokkurs að ganga eftir skýrari svörum. Ég get hugsað mér, að þeir Ingvar og Óskar verði að gera út í 2–3 ár áður en þingið sannfærist um, að nauðsyn sé á föstu skipulagi á þessu sviði.