18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég sagði í fyrri ræðu minni, að það færi vel á því, að framsóknarmenn og jafnaðarmenn töluðu yfir moldum Síldareinkasölunnar, samkv. hinum gamla málshætti: Nil de mortuis nisi bene, en það þýðir: Mælum gott eitt um þá látnu. Þess vegna þykir mér þetta vel til fundið.

Ég get tekið undir ósk hv. 2. landsk. um að hið látna fóstur þeirra rísi aftur upp frá dauðum, en ég vona, að það verði þá í betra heimi, en ekki í þessari syndumspiltu veröld, sem við lifum í. Ég býst við, að líf Síldareinkasölunnar yrði jafn sorglegt og það áður var, ef það ætti að endurtakast aftur í þessum heimi.

Trú mín á framtak einstaklingsins er byggð á reynslu, t. d. eins og þessari, sem hér liggur fyrir, að þegar slík fyrirtæki bregðast, þá verða einstaklingarnir að taka við verkefnunum. Saga Síldareinkasölunnar sýnir, að betra hefði verið að láta einstaklingana afskiptalausa um þann atvinnuveg.

Ég hefi ekkert á móti frjálsum samtökum framleiðenda um sölu á saltfiski, en hverskonar þvingun í þeim efnum á ekki að eiga sér stað.

Hv. 2. landsk. sagði, að frjálslyndu (liberölu) flokkarnir væru að hverfa inn í aðra flokka. Ég hygg, að það stafi af því, að aðrir flokkar hafa nálgazt þeirra stefnu í þjóðmálum og tileinkað sér hana. Jafnaðarmannaflokkar ýmsra þjóða hafa t. d. sveigt frá sínum upphaflegu stefnumálum og samið sig að háttum frjálslyndu flokkanna, og hið sama hafa ýmsir hægri flokkar gert. Þessu uni ég vel.

Það er rétt, sem hv. 2. landsk. sagði, að ég var á móti lögunum frá 1927, sem þáv. íhaldsmenn áttu frumkvæði að, en í því sambandi var hv. þm. að vitna í orð Björns Líndals, og vil ég leiðrétta þá tilvitnun. Í þeirri lýsingu, sem B. L. gaf, var ekki átt við síldarútgerðina sjálfa, heldur skipulagsleysið á sölu síldarinnar og framkomu ýmsra spekúlanta, sem keyptu síldina hér innanlands, og hygg ég, að það hafi verið nokkuð til í því. Síldarverzlun þeirra gekk illa og versnaði ár frá ári. Reynslan hefir synt, að hún gengur misjafnlega, hver sem með hana fer og þó verst hjá Síldareinkasölunni. Þegar markaðurinn er allur í öðru landi, þá er það ekki á valdi einkasölunnar að ákveða verðið á sama hátt og landsverzlun, sem ein selur vissar vörutegundir innanlands.

Þetta hefir reynslan sannað. Hinsvegar höfðu þeir, sem stunduðu síldveiðar, miklu betra upp úr atvinnu sinni fyrir 1928 en eftir að einkasalan var stofnuð. Þó að einstakir menn hafi áður tapað á síldveiðum, þá hafði allur þorri útgerðarmanna venjulega góða afkomu áður en einkasalan tók til starfa. Þá var oftast hægt að fá allhátt verð fyrir síldina hjá útlendum síldarkaupendum, en nú hefir Síldareinkasalan gert það að verkum, að meðalverðið á síld hefir lækkað stórkostlega erlendis. Þetta er mér vel kunnugt fremur en hv. 2. landsk. þm.