09.04.1932
Neðri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Seyðf. hélt á síðasta þingi svipaðar ræður í atvinnubótamálum. Þá kom fram till. frá honum um að verja 11 millj. kr. til atvinnubóta á tveimur árum. Eftir því, sem hann lýsti ástandinu þá, á sumarþinginu, þá atti að þurfa 5–51/2% mill j. kr. til atvinnubóta til hausts. Þannig lýsti nú hv. þm. þessu þá, og ég efa ekki, að hann hafi trúað á það sjálfur, að þetta væri rétt. Nú er nokkur reynsla fengin um þetta. Sumarþingið gaf stj. heimild til að verja 300 þús. kr. til atvinnubóta, og hefir síðan verið veitt af þessari heimild eitthvað lítið á annað hundrað þús. kr. Hérað hv. þm. var nú eitt af þeim fau, er notaði sér þessa heimild um að fá fé til atvinnubóta, en atvinnuleysið þar var þá ekki meira en svo, að atvinnubótaféð var aldrei notað, nema þá að litlu leyti, heldur lagt í sparisjóð, og veit ég ekki betur en að það sé þar enn. nú er hv. þm. enn með till. er fara í sömu átt og í fyrra, en þar sem nú er nokkur reynsla fengin, þá þarf hann ekki að búast við því, að við þessum till. hans verði gleypt. En nú má vitanlega segja, að þörfin næsta ár geti orðið önnur og meiri. En þörfin verður þó að aukast um meira en helming áður en núgildandi heimild þrýtur. Ég hefi líka bent á það, að ríkið megi ekki hlaupa á undan í því að hrúga upp fé til atvinnubóta. Það fé, sem á þann hátt felli í stríðum straumum til óarðbærra hluta, mundi bara auka á kreppuna, þar sem það væri sogið frá lífvænlegum atvinnurekstri, og gæti orðið hættulegt fyrir þjóðarbúskapinn. Ég veit ekki, hvernig þeir hugsa sér viðskiptin við útlönd, sem vilja veita milljónum í slík óarðbær fyrirtæki, því að sannarlega höfum við ekkert ótakmarkað lánstraust í útlöndum. Það er því áríðandi að nota sjálfsbjargarhvötina til hins ýtrasta og beina henni að arðbærri framleiðslu, sem aftur skapar þjóðinni aukið gjaldþol. Að leggja stórfé í kreppuráðstafanir getur aukið mjög á hættuna gagnvart útlöndum. Þetta er ekkert dularfullt fyrirbrigði né torskilið. Það hlýtur að vera viðurkennt af ollum. Um fjárframlög í þessu skyni verður ríkið að vera heldur tregt, en þó ekki um of. það þarf að fullnægja sanngjörnum kröfum um atvinnubætur. En það spillir bara fyrir, ef hlaðið er upp auknum kröfum við ráð, sem þörfin heimtar og ekki er hægt að fullnægja og heldur ekki á að fullnægja. Ég veit ekki nema að þeir, sem gera slíkar kröfur, sem þeir telja sig gera fyrir hönd verkalýðsins, auki það erfiðleika ástand, sem ríkir, og spilli fyrir afkomunni með því að draga úr sjálfsbjargarviðleitninni. Það er erfitt að skilja sauðina frá höfrunum. Ef hægt væri að skilja á milli þeirra, sem geta komizt af eða þá á einhvern hatt skapað sér atvinnu, og hinna, sem brýn nauðsyn ber til að hjálpa, þá væri þetta ekki mikill vandi. En vegna þess, hve þetta er erfitt, og vegna þess, að menn eru egndir upp í það að gera kröfur, þá getur jafnvel farið svo, að þeir, sem sárast eiga um að binda og mest þurfa hjálparinnar með, fari á mis við hana. Það er skylda ríkisins að veita nokkra atvinnubók, til þess að forða frá sulti. Og sú skylda hvílir líka á bæjarfélögunum, og þó mest á þeim eftir því, sem málum er nú skipað hjá okkur í því efni. — Hitt mun enginn telja, að ríkið eitt sé sá atvinnurekandi, sem skylt sé að fullnægja öllum kröfum, sem hverjum og einum dettur í hug að gera til þess. Ríkið ræður ekki yfir neinni gullnámu, sem geri því fært að svara öllum slíkum kröfum. Ég vil líka benda hv. þm. á, að það, sem hjá verkamönnum heitir lítil atvinna, heitir hjá bændum lagt afurðaverð og tap. Rótin að öllum þessum vandræðum er sú, að atvinnuvegirnir bera sig ekki. Og bótin við því öllu er sú, að þeir fari aftur að bera sig. Þegar atvinnutregða er og verkamenn gera kröfu á ríkið, þá eiga atvinnurekendur, a. m. k. bændur og aðrir smærri atvinnurekendur, einnig rétt á því að gera samskonar kröfur. Og þá hlaðast líka upp fleiri kröfur, sem allar til samans verða stærri en svo, að ríkið, sem er samnefnari þess ástands, sem ríkir, geti fullnægt þeim. — Hv. þm. Seyðf. mun að vísu segja, að ekki sé annað en fara í vasa stóreignamannanna og hátekjumannanna og sækja þangað það, sem þarf til þessa. Mér er kunnugt um það, að í Hafnarfirði var samþ. till. um að jafna atvinnuleysisstyrk niður á þá menn, sem hefðu litla atvinnu. En ég hefi líka heyrt, að fulltrúar jafnaðarmanna, sem hafa meiri hl. í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, hafi ekki treyst sér til að framkvæma þá samþykkt. Þeir höfðu boðizt til að segja af sér, svo að aðrir gætu tekið við vandanum. Og af hverju treystu þeir sér ekki? Af því að ekki fundust fleiri en 4 eða 5 slíkir stórlaxar í öllum Hafnarfirði, að nokkuð, sem um munaði, væri að taka af árstekjum þeirra. Ef því, sem fengizt hefði með því að leggja á þessa 4–5 menn, hefði svo verið dreift á alla hina, þá hefði orðið þunnt lagið á hverjum einum. Það hefði orðið líkt og ef dreift væri einum þótti af vatni yfir einn ferkílómetra. Svona fór nú þarna. Við getum einnig tekið Ísafjörð sem dæmi: þar eru jafnaðarmenn líka í meiri hl. í bæjarstjórninni. Þar er því möguleiki fyrir hana að leggja, svo að nægi, á stórar eignir og háar tekjur. Það svarar til þess, að ríkið hækki tekju- og eignaskattinn, þegar árferði er erfitt. En hvers vegna er þetta ekki gert? Hvers vegna koma þeir og biðja ríkið um hjálp til að standa við skuldbindingar sínar? Hvers vegna leggja þeir ekki á tekjur og eignir, sem þeim þó er heimilt? Og þar hafa jafnaðarmenn undirtökin um að leggja nauðsynleg útsvör á. Já, hvers vegna gera þeir það ekki? — Tekju- og eignarskatturinn er mál, sem er skylt þessu. Hvorttveggja byggist á því, að einhver afgangur sé til, sem hægt er að taka. Og þegar ég hefi nefnt 25% hækkun á tekju- og eignarskattinn, þá hefi ég gengið lengra en jafnaðarmannastj. í Danmörku og Englandi hafa gert. — Og þegar Bramsnæs í Danmörku kom með sitt frv. um hækkaðan tekjuskatt, sem gilda átti aðeins einn ársfjórðung og miðast við þær tekjur einar, sem almennt eru háar hér, þá fór hann ekki hærra en 25% og varð þó skatturinn samanlagður ekki eins þar að tiltölu og tekju- og eignarskatturinn hjá okkur.

Það má nefna í þessu sambandi, að það er ekki alltaf hægt að fara eftir því í framkvæmdinni, þó að í blaðaskrifum sé mikið talað um hátekju- og stóreignamenn. Þó að hér sé margur maður, sem kallaður er stóreignamaður, þá hefir hann litlar sem engar tekjur í slíku árferði og nú er; skuldar kannske svo mikið, að hann er í raun og veru fátækari en þeir allra fátækustu. En það má kannske með nokkrum sanni segja, að þó að það sé slæmt að skulda, þá sé þó mesta örbirgðin sú að geta hvergi skuldað, hvorki í bönkum né annarsstaðar, þar sem lánað er.

Okkar land er ekki auðugt, og ekki á neinn hátt sambærilegir möguleikar hér á móts við það, sem er í öðrum löndum, t. d. í Svíþjóð, Englandi eða Danmörku. Þetta eru allt stórauðug lönd, og því er ekki ráðlegt, að okkar fátæka land skeri sig úr og fari lengra í skattaalögum en þessi auðugu lönd hafa treyst sér að fara undir forustu radikalra og socialista.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En hv. þm. Seyðf. for í kringum það, sem ég beindi til hans um nýja og hækkaða skatta. Ég beindi því til hans, hvernig ætti að ná þeim sköttum og skyldum, sem gilt hafa um langt skeið, en framlengja þarf, svo að fullnægja megi þeim skyldum, sem lagðar hafa verið á ríkissjóð. Það verður fyrst að tryggja þá og framlengingu þeirra tolla, sem fjárhagsáætlun ríkisins er reist á. Svo má á eftir tala um þessa hluti, sem hv. þm. Seyðf. var að bjóða upp á. Ég er fús til samtals við hann um þá. Ég veit, að þörf er á atvinnubótafé, en því er ekki hægt að fullnægja fyrr en séð er, að eitthvað sé hægt af mörkum að láta.