22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég minnist þess, að nú rétt nýlega bar hv. 3. þm. Reykv. (EA) fram fyrirspurn til hæstv. forsrh. um það, hvort nokkurra till. væri að vænta frá hæstv. ríkisstj. um nýja skipulagningu síldarútvegsins. Hæstv. forsrh. svaraði því þá til, að um slíkt yrði tækifaeri til að ræða, er þetta frv., sem nú er komið fyrir deildina, yrði rætt. Ég hefði því vænzt þess, að nú við 1. umr. þessa frv. mundi hæstv. forsrh. lýsa yfir því, hvort hann hugsaði sér að gerðar yrðu nokkrar ráðstafanir til tryggingar því, að Íslendingar geti yfirleitt stundað síldveiðar í sumar. En það virðist því nær útilokað, ef einkasalan er lögð niður, en ekkert skipulag sett í staðinn. nú er það svo, að síldin er því nær óveðhæf. Það er og fullvist, að útgerðarmenn eiga þess engan kost að leggja fram 12–15 kr. kostnað á hverja tunnu, sem mun reynast nauðsynlegur. ég get trúað því, að útlendingar mundu lána einstaklingunum tunnur, kol og salt, eins og tíðkaðist áður en einkasalan var stofnuð. En um leið og það verður, þá er síldarverzlunin komin úr höndum Íslendinga og í gamla farið, í hendur leppum erlendra manna. Það verður sama sagan og áður, tap annað árið, gróði hitt. Starfsfólkið hefir enga tryggingu, tapið skellur á því í vondu árunum, gróðinn lendir hjá útlendingum. Mér væri það því kært, ef hæstv. forsrh. vildi gera hv. d. það ljóst, hvort Framsóknarfl. muni gera nokkrar till. um nýtt skipulag síldarútvegsins, eða hvernig hann mundi snúast við till. um það, ef fram kæmu.