09.04.1932
Neðri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. síðari kafla (Ingólfur Bjarnarson):

Mér finnst það koma úr hörðustu átt, að hv. þm. Seyðf. skuli vera að tala um innantóm orð við okkur fjvn. út af því, að við vildum ekki hoppa inn á eða taka alvarlega till. þeirra hv. jafnaðarmanna um einnar millj. kr. styrk til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum, þegar, eins og ég drap á áðan, að flokkur hans hefir nýlega lýst því yfir í útvarpið, að hann mundi greiða atkv. á móti öllum tekjuöflunarfrv. hæstv. stj. Hv. þm. Seyðf. vildi ekki kannast við, að þetta hefði verið gert nema með einhverri sérstakri klásúlu. En hv. 3. þm. Rv. lýsti þessu yfir greinilega og skilyrðislaust í nafni flokksins, og þýðir ekki fyrir hv. þm. að neita því. Nú vil ég spyrja hv. þm. að öðru. Var ekki yfirlýst af þeirra hendi gegnum útvarpið, að þeir ætluðu sér að fella fjárl.? ég býst varla við, að hann muni leggja út í að neita þessu, sem þúsundir manna hafa hlustað á.

En hvað eru innantóm orð ef ekki það, að bera fyrst fram till. um einnar millj. kr. atvinnubótastyrk í fjárl., en ætla sér svo að greiða atkv. á móti fjárl. í heild. Þetta lýsir mjög skýrt, hvað undir býr, að hér eru aðeins orðin ein og algerlega innantóm.

Um bjargráðasjóð ætla ég ekki að tala, enda skiptir engu máli, hvað í honum er. Ég hélt því fram, að það mundi vera innan við eina millj., sem mun rétt, en tel enga ástæðu að deila um það. Hitt er aðalatriðið, að Alþingi hefir ekki ráðstöfunarrétt yfir þeim sjóði. Hann hefir sína yfirstjórn, sem ræður honum, enda er það lögbundið, hvernig fara skuli með sameignar- og séreignarsjóði þessa.

Þá vil ég víkja að öðru í ræðu hv. þm. Seyðf. Hann kvartaði um, að ég hefði engu svarað fyrir hönd n. þeim orðum, sem hæstv. fjmrh. beindi til hennar í sambandi við unglingaskólann á Seyðisfirði. Hann ætti nú að skilja, að það mundi ekki hafa verið auðvelt fyrir mig að svara fyrir n., þar sem ég talaði rétt á eftir hæstv. fjmrh. Annars get ég lýst því yfir fyrir mig persónulega, að ég hefi ekkert á móti skilningi hæstv. fjmrh. og get því fallizt á þá meðferð málsins.

Þá sagði hv. sami hm., að ég hefði haft sem ástæðu í móti ábyrgðartill. hans fyrir samvinnufélag sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði, að ríkið hefði fengið skell af samskonar ábyrgð fyrir sjómenn og verkamenn á Ísafirði. En þetta er ekki rétt eftir mér haft; ég talaði ekki um neinn skell í því sambandi, heldur sagði ég, að reynslan á Ísafirði benti til, að óvarlegt væri fyrir ríkið að ganga í slíkar ábyrgðir, sérstaklega þó á þeim stöðum, þar sem lakari skilyrði eru fyrir hendi en á Ísafirði. En eftir upplýsingum hv. þm., sem ég minntist ekkert á, skilst mér, að ríkið hafi þurft að borga tugi þúsunda fyrir Ísfirðinga vegna ábyrgðarinnar. Og það sannar einmitt ummæli þau, er ég hafði, að það gæti verið varhugavert fyrir ríkið að ganga í svona lagaðar ábyrgðir, þar sem ekki eru góð skilyrði fyrir hendi.

Þá gerði hv. þm. mikið úr því, að ég í sakleysi leit svo á afstöðu n. til tveggja síðasttöldu stafliða brtt. hans, að það mundi naumast hafa mikið að segja, þó að þeir væru látnir boða til 3. umr. og frekari gögn þá fyrir hendi en felast í sjálfum till. Um þetta fórust honum svo orð, að þarna sæist afgreiðsla n. á brtt. þeim, sem fram eru bornar. N. vildi ekki taka tillit til raka né afla sér upplýsinga um málin. Ég hélt, að till. þessar væru svo ljósar, að hægt væri að taka afstöðu til þeirra, þótt ekki fylgi frekari útlistun en felst í þeim sjálfum. Ég held og, að hv. þm. Seyðf. sé mér sammála um þetta. Hann sagðist ekki hirða um að taka upp þau rök, sem hann hefði borið fram fyrir till. í gærkveldi, þó að segja mætti, að hann talaði þá fyrir auðum stólunum, því að hann taldi líklegt, að það breytti engu. En úr því að hann viðurkennir, að það muni engin áhrif hafa á hv. þdm., þótt hann beri fram rökin, þá virðist óþarft að vera að geyma till. til 3. umr.

Ég vænti nú, að hv. þm. Seyðf. geti orðið mér sammála, er ég segi, að hann hafi höggvið fullnærri sjálfum sér um leið og hann brá fjvn. um innantóm orð í sambandi við afstöðu hennar til brtt. einstakra hv. þdm. Hefi ég með þessum fáu orðum mínum sýnt fram á, að það er hv. þm. Seyðf., sem öllum öðrum framar hefir notað innantóm orð í ræðum sínum og rökum við málflutning gersamlega andvana fæddra tillagna.