22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Ólafur Thors:

Ég tel ekki rétt, að þetta frv. komi svo til umr. hér, að ekki sé svarað ummælum eins ráðherranna. dómsmrh., um tildrög og upphaf síldareinkasölunnar, sem hann lét falla í Ed. nú rétt nýlega. Þar sagði dómsmrh., að einkasalan væri verk jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna, einkum þó sjálfstæðismanna.

Eins og flestum er kunnugt, þá varð hér í ófriðarlokin mikil aukning skipaflotans. Með vaxandi veiði, sem af því leiddi, urðu vandkvæði á sölu síldarinnar, því markaðurinn var takmarkaður. Og það var svo komið árin 1925–1926, að sjálfstæðismenn, sem annars treysta mest á frjálst framtak einstaklingsins, töldu rétt að gera tilraun til að skipulega þennan atvinnuveg. Í þessu skyni komu sjálfstæðismenn á þingi 1926 fram löggjöf um þetta efni. Þar var svo ákveðið, að ef viss fjöldi framleiðenda myndaði samlag með sér, þá væri ríkisstj. heimilt að veita því rétt til einkasölu á síld. Að þessi leið var farin af hálfu sjálfstæðismanna, að fara fram á íhlutun ríkisins, stafar af því, að risinn var upp verulegur hópur umboðsmanna útlendinga, er höfðu allt annara hagsmuna að gæta en innlendir útgerðarmenn. Því var það talið nauðsynlegt, að, löggjafinn hlutaðist meira til um þennan atvinnuveg en sjálfstæðismenn annars telja heppilegt.

Kjarni laganna 1926 var sá, að ef framleiðendur mynduðu með sér sölusamlag, þá væri heimilt að veita því einkasölu. Allir áttu að hafa frjálsan aðgang að samlaginu. Meginhugmyndin var sú, að atvinnurekendur skipuðu sjálfir málum sínum með þeirri einni íhlutun ríkisvaldsins, sem nauðsyn var á til að hefta áhrif leppmennskunnar. Lögin áttu einungis að gilda um ákveðið árabil, þann tíma, sem talinn var þurfa til þess að helta leppana úr lestinni.

En þessi lög voru ekki framkvæmd. M. a. var það af því, að útgerðarmenn höfðu rótgróna óbeit á þessum lögum, og töldu tvísýnt um, að með þeim yrði nokkur bót á ráðin, enda þótt komið væri í óefni.

Svo komst Framsóknarfl. til valda við kosningarnar 1927. Á fyrsta þingi Framsóknarstj., 1928, er borið fram nýtt frv. nú gerir stj. tilraun til að láta lita svo út, sem frv. frá 1928 hafi verið eitt og hið sama og lögin frá 1926. Það ætti nú að vera óþarfi hér á Alþingi að gera grein fyrir því, að hér var um tvennt ólíkt að ræða. En úr því að einn ráðherranna hefir látið sér sæma úr ráðherrastól að halda fram þessari vitleysu, þá verð ég að þreyta hv. þd. á því að svara vitleysunni. Ef hér hefði verið um eitt og hið sama að ræða, hvaða ástæða var þá til að koma fram með nýtt frv. á þingi 1928, og hvaða ástæðu höfðu sjálfstæðismenn til að sýna því fyrirmæli jafn einbeitta mótstöðu og þeir gerðu 1928, sem þeir allir voru fylgjandi 1926? Um þetta mál urðu einmitt harðari deilur en um nokkurt annað mál, umr. fylla 200–300 dálka í Alþt., ef ég man rétt. Ef hvorttveggja var eitt og hið sama, hvaða skynsamleg ástæða var þá til að bera málið fram af nýju, og hvaða skynsamleg ástæða var til þess fyrir okkur sjálfstæðismenn að sýna slíka andstöðu?

Nei. Satt frá sagt, þá er hér um allsendis ólíka löggjöf að ræða. Samkv. 1. frá 1926 var að mestu leyti byggt á, að atvinnurekendur væru einraðir um sölu framleiðslu sinnar; aðeins þær hömlur voru settar, er nauðsynlegar þóttu til að helta leppana úr lestinni, umboðsmenn útlendinga. Samkv. 1. frá 1928 var allt valdið tekið úr höndum þeirra, er allt áttu undir atvinnurekstrinum og sett yfir í hendur löggjafans, sem þekkingarsnauður er með öllu um þessi efni. Meiri hl. af æðstu stj. fyrirtækisins var kosinn af Alþingi, 3 af 5; einn var kjörinn af Verklýðssambandi Norðurlands og einn af útgerðarmönnum þeim, er árið áður höfðu stundað síldveiðar. Reyndin varð sú, að meiri hl. útflutningsnefndar var skipaður framsóknar- og jafnaðarmönnum, og meiri hl. útflutningsnefndar valdi einn alla framkvæmdarstjórana. Það fékkst ekki, að viðhöfð yrði hlutfallskosning.

Það þarf ekki að segja margt um það. hver ábyrgðina beri á einkasölunni, við þá, sem rekur minni til Alþingis 1928. Sá, sem ekki man það þing, en vill leggja það á sig að lesa Alþt. frá því ári, fær líka sönnun þess, hverjir málið hafa borið fram og hverjir hafa verið á móti því. En ef menn nenna ekki að hafa fyrir því, getur verið nógu gaman að lesa það, sem sá ráðherranna, sem nú er að eigna öðrum þetta afkvæmi sitt, sagði um málið, einu ári eftir að lögin voru komin á. Ég vil lesa hér kafla með leyfi hæstv. forseta: „Nýrra úrræða þurfti með nálega um öll verkefni þjóðfélagsins. Eitt af þessum verkefnum var síldarmálið. Fyrir bankana, útvegsmenn og verkamenn var lausn þessa máls meginatriðið. Fyrir bændastétt landsins hafði það aðallega óbeina þýðingu, þá, að svo væri um hnútana búið, að kauptúnunum hætti að blæða út í sambandi við fjárglæfrarekstur þessarar atvinnu. — hér þurfti umbót og hana sterka. Þá kemur bændaflokkurinn til skjalanna. Hann er aðallega áhorfandi í málinu. En hann finnur bjargráðin. Knýr verkamenn og útgerðarmenn til sjálfsbjargar“.

Ennfremur segir ráðherrann: „Oddamaðurinn er tilnefndur af bændavaldi þingsins. sá maður verður ósjálfrátt stýrimaður skútunnar. Hann skapar meiri hl. til hægri og vinstri, eftir því sem málefni eru til“.

Og árangurinn er þessi, að sögn sama ráðh.:

„Útvegsmenn höfðu ágóða af atvinnu sinni. Verkamenn fengu kaup sitt goldið. Skattar greiddust í landssjóð af síldinni. Bankarnir fengu aftur fé, sem þeir lánuðu útveginum og erlendis byrjaði Síldarsölufélagið að ávinna sér heiður og traust“.

Þetta var nú þegar spámaðurinn, sem stundum situr hér í ráðherrastól — hann situr þar reyndar sjaldan nú, eftir að ég fékk sæti hér við hliðina á honum — var í almætti sínu. En nú, þegar dómur reynslunnar er búinn að klæða hann úr spámannsskikkjunni, þá kveður við annan tón. Þá er það síldareinkasala Björns Líndals og Ólafs Thors. Þá eru það sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn, sem bera ábyrgðina; en framsóknarmenn ekki að neinu leyti.

Ég átti nýlega deilu við mann um þetta, hver ábyrgðina bæri á einkasölunni. Þótt ég vitnaði í Alþt. og þótt ég læsi þetta fyrir honum, sem ég hefi nú lesið úr „Tímanum“, þá lét hann sér ekki segjast. Það var ekki fyrr en ég las upp ofurlítinn part úr annari grein eftir sama ráðh., að maðurinn sannfærðist:

„Smátt og smátt komu í ljós ágallar á „þjóðstjórn“ síldareinkasölunnar, og þeir ágallar valda því, að forsætisráðherra hefir neyðzt til þess að taka í bili valdið af stjórn hennar, af þeim tveim aðiljum, sem eftir skipulaginu áttu að ráða þar mestu, þ. e. útvegsmönnum og verkamönnum“.

Þetta er skrifað eftir að hæstv. atvmrh. hefir numið úr gildi þennan óskapnað dómsmrh. Ef nokkru sinni hefir verið uppkveðinn Salomonsdómur, þá er það þetta. Dómsmrh. getur ekki hugsað sér, að þetta uppáhaldsbarn hans sé dáið, það er einungis svæft í bili !

Ég held, að það sé óþarfi að deila um það, hver ber ábyrgðina á lögunum um einkasöluna. Það er dómsmrh., sem í einu er faðir þeirra, móðir og illur andi.

Ég, sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. mikið, með því að ræða það, hvernig fyrirtækið hefir reynzt, því ég hefi heyrt á hæstv. forsrh., að hann ætli sér ekki að bera fram frv. um að endurlífga einkasöluna í einu eða öðru formi.

En reynslan af einkasölunni er í fáum orðum sú, að allur ferill hennar hefir verið eitt dálítið hneyksli, allt frá upphafi, að stj. hennar var skipuð allsendis ófróðum mönnum. (LH: Oft gekk það nú illa með síldina áður). Já, það er alveg rétt hjá hv. þm. V.-Sk., og það gekk oft svo illa, að við sjálfstæðismenn álítum, að eitthvað þyrfti að gera til bóta. Að vísu spáðum við illa fyrir fyrirtækinu 1928, en engar hrakspár okkar þá voru svo svartar, að reynslan hafi ekki farið langt fram úr þeim.

En úr því að hv. þm. V.-Sk. minntist á þetta, þá vil ég rifja stuttlega upp rétt aðeins fyrsta óhappið og axarskaftið þessa ófarnaðarfyrirtækis. Eitt hið fyrsta, sem gert var eftir að búið var að skipa hina nýju framkvæmdarstjórn, var að senda einn þeirra utan til að semja um sölu síldarinnar. Honum verður það á, að fara til Danmerkur, hittir þar á danskt Gyðingafirma og fær því einkaumboð til að selja ísl. síldina í Svíþjóð. Nú er það svo, að Danir kaupa lítið af ísl. síld, en Svíar mikið. En þegar neyða átti Svía til að leita til danskra Gyðinga til að fá keypta ísl. síld, þá firrtust þeir og neituðu að kaupa síldina. Endirinn varð sá, að einkasalan varð að kaupa sig frá samningnum við Gyðingana fyrir ærið fé. Form. útflutningsnefndar, Erl. Friðjónsson, neitaði því í fyrstu, að þessi samningur hefði verið gerður. En síðar gaf stj. einkasölunnar þó út skýrslu, sem sannaði, að þetta var rétt.

Næst sneri einkasalan sér til Svía og gerði við þá sölusamning, sem lengi mun í minnum hafður.

Framkvæmdarstj. seldi með þessum samningi 40 þús. tunnur síldar með þeim kjörum, sem ég hygg, að áður séu óekkt. Eitt ákvæðið í samningnum var það, að síldin átti að vera af þeirri stærð, að 270 stykki færu í hverja tunnu. En það voru engin tök á að útvega svo stóra síld, því hún er ekki til á íslenzkum miðum, svo nokkru nemi. Það er í mesta lagi 1/10 hluti af íslenzku síldinni sem nær þeirri stærð, og er því vitanlega ógerlegt að fá til sölu síld, sem nær þeirri stærð upp og ofan.

Annað atr. í samningnum var, að öll síldin ætti að vera af fyrstu veiðinni. En það vita allir, sem nokkuð þekkja til síldarverzlunar, að það er mjög óskynsamlegt að selja alla fyrstu veiðina, án þess að selja um leið eitthvað af seinni veiðinni. — þriðja ákvæðið í þessum samningi var á þá leið, að ef síld felli í verði eftir að samningurinn var gerður, þá skyldi einnig lækka verðið á síldinni, sem samningurinn hljóðaði um. M. ö. o. ef einhver síld var seld fyrir lægra verð heldur en gert var ráð fyrir í samningnum, þá átti samningsverðið að færast í sama horf. Nú er vitanlegt að síldarverð lækkar oft eða hækkar mjög ört. En þarna var svo um hnútana búið, að þó að verð síldarinnar hefði hækkað, hefðu Íslendingar farið á mis við þá hækkun vegna samningsins, en ef hinsvegar verðið lækkaði, var samningurinn gagnslaus, því þá átti verðið á þeirri síld, sem ráðstafað var með honum, einnig að lækka. Slíka sölusamninga gera ekki nema þeir, sem eru börn í öllum verzlunarsökum.

Enn var það eitt ákvæði í þessum dæmalausa samningi, að síldin ætti öll að vera „ekstra prima kvalitet“. Þetta er sterkt að orði kveðið um ágæti vöru og mjög illt að fullnægja slíku samningsakvæði. Að því er síld snertir, þá skil ég ekki, að hægt sé að láta af hendi nokkra tunnu, sem maður getur staðhæft, að innihaldi „ekstra prima kvalitet“, svo að ekki verði um deilt.

En það sem gleggstan vott ber um barnaskap þeirra, sem samning þennan gera f. h. Síldareinkasölunnar, er það, hver það var, sem átti að dæma um ágæti vörunnar. Það var svo sem ekki íslenzkur gerðardómur, og ekki heldur sænskur. Það var yfirleitt enginu gerðardómur, heldur átti kaupandinn sjálfur að dæma um, hvort síldin var „ekstra prima kvalitet“, eins og lofað var.

Ég hygg, að það þurfi ekki að færa fleiri eða sterkari sönnur á það, að slíkt stórfyrirtæki sem hér er um að ræða, gat aldrei farið vel í höndum manna, sem gera svona heimskulegan samning. Síðan þessi fyrsti samningur var gerður, hefir allt verið á sömu bókina lært í þessu efni. Slælegt eftirlit hefir verið með vöruvöndun og þar af leiðandi lítil vörugæði. Flestir hafa hugsað mest um að hafa sjálfir setu mestan persónulegan hagnað af viðskiptunum, eins og oftast vill verða við slík fyrirtæki. Einkasalan hefir gert sig bera að hreinni rangsleitni við íslenzka viðskiptamenn, og ég held, að það sé ekki af neinni óbilgirni sagt, að forstjórar hennar hafa yfirleitt verið illa færir um að gera samninga við erlenda viðskiptamenn. Það, sem alvarlegast hefir þó verið, er hið dæmalausa fyrirhyggjuleysi stjórnenda Síldlareinkasölunnar, Þegar nóg var af síld, vantaði tunnur, þegar nógar tunnur voru, vantaði salt, og þegar loks búið var að útvega nóg af tunnum og salti, þá var síldin farin. Eitt árið var tunnuskortur, annað saltskortur þriðja síldarskortur, en öll árin var sami vitsmunaskorturinn hjá þeim, sem einkasölunni áttu að stjórna. Það getur því engan furðað á því, að nú er komið sem komið er, og eru þó afdrif þessa fyrirtækis með meiri ósköpum heldur en dæmi þekkjast um áður. Stj. þess var einráð um, hvað hún skammtaði hinum innlendu viðskiptamönnum fyrir framleisluna, og hún skammtaði svo smátt, að þeir gengu með ákaflega skarðan hlut frá borði. Þrátt fyrir slíka aðstöðu stendur nú einkasalan uppi gjaldþrota. Það hefir verið ráðizt hér mjög á þá einstaklinga, sem orðið hafa fyrir því að tapa meiru á atvinnurekstri sínum heldur en þeir geta staðið skil á. Slík töp stafa þó venjulega af því, að atvinnurekandinn hefir greitt of hátt verkakaup, hærra heldur en afurðirnar hrökkva fyrir, eða, ef um verzlunarfyrirtæki er að ræða, af því það hefir greitt landsmönnum hærra verð fyrir vörur sínar heldur en tekizt hefir að fá fyrir þær erlendis. Flest gjaldþrot stafa þannig af því, að viðkomandi aðili hefir greitt öðrum íslenzkum aðiljum hærri hlut heldur en hann gat staðizt. En ef það er rétt, sem ég hygg að sé óhætt að fullyrða, að gjaldþrot Síldareinkasölunnar nemi á aðra millj. kr., þá þýðir það, að þó að allir útgerðarmennirnir hefðu gefið sinn hluta í framleiðslunni í tvær vertíðir þ. e. a. s., þó að þeir hefðu lánað skipin, lagt þeim til kol og allt annað, sem til útgerðarinnar þarf, endurgjaldslaust, og þó að sjómennirnir hefðu unnið kauplaust við síldveiðarnar árin 1930 og 1931, þá hefði einkasalan samt verið allt að því ef ekki alveg gjaldþrota.

Mér þótti rétt að láta þessar upplýsingar koma fram nú við fyrstu umr. þessa máls, aðallega vegna þess, að einn af ráðh. hefir verið svo djarfur að eigna öðrum sín eigin verk. Þótt ætlast megi til, að allir hv. þdm. viti hið sanna í þessu máli, þá finnst mér rétt, að það komi skýrt fram hér á Alþingi og í Alþt.

Ég ætla svo að enda þetta mál mitt með því að segja það, að ég veit ekki, hvort verra á að teljast, ofstopi dómsmrh. og hans manna, þegar þeir með kúgunarvaldi þingmeirihlutans lögðu síldarútveginn í hlekki einkasölunnar gegn vilja allra þeirra, sem að honum stóðu, eða hitt, að vilja nú, þegar hrakspár okkar, sem minnsta trú höfðum á þessu skipulagi, hafa rætzt, þegar verr er komið heldur en þá svartsýnustu í þessu efni bráði fyrir, renna frá öllu saman og kenna öðrum um. Slíkt verður að teljast óvenjuleg lítilmennska.