22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Héðinn Valdimarsson:

Hæstv. forsrh. og andstæðingar hans, sem talað hafa hér í dag, eru á eitt sáttir um það, að stj. hafi gert rétt í því að gefa út bráðabirgðalög um skiptameðferð á búi Síldareinkasölunnar, eins og hún gerði í haust. Að öðru leyti hefir ekki verið rætt um þetta atr. þessa máls. Hæstv. forsrh. hefir ekki fært fram neinar röksemdir fyrir því, að þetta hafi verið réttilega gert, og andstæðingar hans hafa eingöngu dvalið við einstaka liðna atburði í sambandi við þetta mál. Við jafnaðarmenn höfum ekki tekið þátt í þessum umr., en okkur þykir þó rétt, að það komi fram, að við erum í andstöðu við hina flokkana um þetta mál, og í hverju andstaða okkar er fólgin.

Það er vitanlegt, að það skipulag, sem á einkasölunni var, var frá jafnaðarstefnunni runnið, og hafði því enda verið haldið fram áður en meiri hl. fékkst fyrir því hér á þingi. Reynslan hafði sýnt það áþreifanlegar um þennan atvinnurekstur en aðra, að skipulagsleysi hinnar frjálsu samkeppni var með öllu óhæft, og það réð hér úrslitum. Við jafnaðarmenn höfum aldrei verið í vafa um það, að nauðsynlegt er að skipuleggja allan þennan atvinnurekstur, og það mætti segja, að það sé undarlegt, að hv. þm. Vestm. og aðrir skuli ekki sjá það, vegna þeirrar reynslu, sem síldarútvegurinn yfirleitt hefir gefið. En hvað sem þessu líður. Þá stóðu málin svo, þegar síldareinkasalan var sett, að ekki var deilt um það, að nauðsynlegt væri að koma skipulagi á síldarútveginn, — um það voru allir sammála — heldur stóð deilan um það, hvernig ætti að framkvæma þessa skipulagningu, og þá einkum, hverjir ættu að fara með ráðin. Íhaldsmenn, sem þá kölluðu sig svo, héldu því fram, að atvinnurekendurnir einir ættu að ráða, og vildu þannig láta löggjafarvaldið skipuleggja gróðamöguleika þeirra með einkasölunni. Á móti þessari skoðun héldum við jafnaðarmenn því fram, að fyrst og fremst bæri að taka tillit til þeirra, sem höfðu vinnu við þennan atvinnurekstur, og þessu samkv. vildum við láta verkalýðinn til lands og sjávar, sem fyrst og fremst hafði hagsmuna að gæta í sambandi við einkasöluna, þar sem allar atvinnuvonir hans voru við hana bundnar, ráða yfir þessi fyrirtæki a. m. k. það mikið, að útgerðarmenn gætu ekki fyrir borð borið hagsmuni hans. En Framsóknarflokkurinn gat hvoruga þessa leið aðhyllzt, og sá ráðh. flokksins, sem mest lét sig þessi mál skipta, núv. hæstv. dómsmrh., samdi um framgang málsins við Einar Olgeirsson og aðra kommúnista á Akureyri, eins og síðar hefir orðið upplýst (Dómsmrh.: Þetta eru allt ýkjur). Þetta er allt sannanlegt, og er ráðlegast fyrir hæstv. dómsmrh. að flyja út um dyrnar þess vegna. Dómsmrh. samdi við Einar Olgeirsson, að Verkalýðssamband Norðurlands (Kommúnistasambandið) skipaði mann í einkasölustj., en ekki Alþýðusamband Íslands, og urðu þræðir málsins þannig á milli Framsóknarfl. og kommúnista, en ekki Alýðufl., sem telur þó innan sinna vébanda allan hinn íslenzka verkalýð kalla. Enda fór svo, að Alþýðufl. hefir haft lítil áhrif innan einkasölunnar. Einn af framkvæmdarstjórum hennar var Og kommúnisti, Einar Olgeirsson, eins og hann samdi sjálfur um við dómsmrh. fyrirfram, og yfirleitt var ekki farið eftir ráðum Alþýðufl. um það, sem gerðist í þessum málum, enda hafa afleiðingar þess sýnt sig. Á síðasta þingi voru samþ. lög um breyt. á stjórnarfyrirkomulagi einkasölunnar, sem að áliti allra flokka var alveg ónothæft. Hnigu þær breyt. í þá átt, sem sjálfsögð var, að stjórn einkasölunnar skyldi fyrst og fremst falin þeim aðiljum, sem mestra hagsmuna hefðu að gæta um síldarútveginn, en það urðu verkalýðurinn annarsvegar og stórir og smáir útvegsmenn hinsvegar. Um þessar breyt. voru alþýðuflokksmenn og íhaldsmenn sammála, en framsóknarmenn virtust í fyrstu á báðum áttum, en þó varð ekkert úr andstöðu þeirra gegn heim, enda munu þeir hafa talið, að fulltrúakosningar samkv. lögunum svo breyttum myndu gefa hvorugum flokknum, Alþýðuflokknum né Sjálfstæðisflokknum, meiri hl., svo að þeir gætu einnig framvegis riðið baggamuninn um stjórn einkasölunnar og ráðið á úrslitastundunum. En þetta fór á allt annan veg en ætlað var, því að Alþýðuflokkurinn fékk hreinan meiri hl. í stj. einkasölunnar. Einkasalan var að því leyti komin í eðlilegt horf, að stj. hennar var nú komin í hendur þeirra, sem mestra hagsmuna höfðu að gæta í þessum greinum, og stjórnarkosningarnar sýndu, að Alþýðuflokksmönnum var bezt trúað fyrir stj. og umsjá fyrirtækisins, sem og rétt var. Verkalýðurinn kaus eingöngu Alþýðuflokksfulltrúa og auk þess mikill hl. smáútvegsmanna á Vestur- og Norðurlandi, sem eftir reynslu einkasölunnar treystu Alþýðuflokknum bezt til að stjórna henni. Þá var haldinn aukafundur í okt. í vetur og átti samkv. leigunum aðeins að kjósa nýja útflutningsnefnd og endurskoðendur, sem áttu að taka við í ársbyrjun 1932, en þá skyldi og falla niður umboð gömlu útflutningsnefndarinnar, en hin nýkjörna útflutningsnefnd taka við. En í stað þess að halda áfram á grundvelli þess skipulags, sem lagt var í ágúst, þá gerði hæstv. forsrh. sér hægt um hönd og afnemar einkasöluna með bráðabirgðalögum, alveg fyrirvaralaust og undir því yfirskini, að skuldir hennar og töp séu svo mikil, að ótækt sé, að hún sé látin starfa áfram. Að þessum ástæðum hæstv. forsrh. kem ég síðan. En ég vil spyrja hæstv. ráðh., ef átti að leggja einkasöluna niður, hver gaf þá hæstv. ráðh. heimild til þess að skipa sérstaka skilanefnd í stað stj. einkasölunnar, sem þá var nýkosin samkv. fyrirmælum sjálfs þingsins? Með þessu er hæstv. ráðh. að brjóta tveggja til þriggja mánaða gamlan þingvilja, vegna þess að hann vill ekki láta Alþýðuflokksmenn komast í reikninga einkasölunnar og taka þar taumhaldið.

Þá hafa hv. sjálfstæðismenn talað mikið um töp einkasölunnar, og um það, hve þungum búsifjum hún hafi valdið í síldarútveginum. Ég hefi talað við ýmsa útvegsmenn bæði á Norður- og Vesturlandi, sem líta öðruvísi á þetta mál, að undanteknu síðasta ári, sem var allsstaðar hið mesta harðæri. En hin árin, sem einkasalan hefir starfað, er það álit margra, sem til þekkja, að síldarverzlunin hafi yfirleitt gengið betur en áður. Að vísu var það svo áður, að einstakir menn höfðu við og við af slympilukku nokkurn hagnað, en langsamlega flestir, sem við síldarútveg fengust, urðu fyrir beinum töpum ár eftir ár. Hinsvegar reyndist það svo, að árin fram að síðasta ári og frá byrjun einkasölunnar, gátu síldarútvegsmenn haldið atvinnurekstrinum gangandi yfirleitt með sæmilegum árangri enda þótt ekki væri um mikinn beinan hagnað að ræða. En ég vil nú spyrja útgerðarmenn þá, sem eiga sæti hér í hv. d.: Hvernig er það með hagnaðinn af saltfisksölunni síðasta ár? Ætli það sé betur komið með hana en síldareinkasöluna og hún í betri höndum en einkasalan var með öllum göllunum? Ég vil sérstaklega beina þessari spurningu til hv. þm. G.-K., sem er í stj. þess fyrirtækis, sem mikið hefir með þessa hluti að gera. Það er áreiðanlegt, enda er það álit allra, sem skyn bera á þessi mál, að það er ekki hægt að hugsa sér verra fyrirkomulag á saltfisksölunni en nú er. Það er t. d. alkunnugt um Kveldúlf, að hann hefir notað aðstöðu sína á Spáni til þess að tryggja sölu á saltfiski síns eigin félags, meðan verðið var sæmilegt, en eftir að verðfallið hófst, hefir Kveldúlfur velt því yfir á viðskiptamenn sína og látið þá bera hallann. Svipað má segja um hitt firmað. Kveldúlfur og Alliance hafa haft einkamannaeinkasölu á saltfiskinum og selt á ári með fallandi verðlagi fyrst sinn eigin fisk, en látið bátaútvegsmennina sitja á hakanum, en þeir gátu engum öðrum selt sinn fisk en Kveldúlfi og Alliance og fengu því verðfallsskellinn. Hvernig skyldi rekstrarafkoman vera um þessar mundir hjá bataútveginum og hjá togaraútgerðinni yfirleitt? Ætli það sé ekki sama sagan allsstaðar: ekkert nema stór töp. Það er þess vegna ekkert sérstakt um síldareinkasöluna, þó hún hafi orðið fyrir töpum, auk þess sem sá atvinnurekstur hefir jafnan þótt áhættumeiri og stopulli en aðrir. Eða hvað segir hv. þm. Vestm., sem var að belgja sig upp út af töpum einkasölunnar, um útgerðina í Vestmannaeyjum? Ætli gróðinn sé mikill þar? Hv. þm. getur ekki borið á móti því, að saltfisksalan þar hefir ekki gengið betur en svo, að sjómenn og útvegsmenn hafa ekkert fengið fyrir að veiða aflann, og útgerðin yfirleitt hefir þar sem annarsstaðar orðið fyrir stórtöpum og er á heljarþröminni. Það má þess vegna rekja þessi töp lengra en til einkasölunnar, það má rekja þau til landbúnaðarins, þar sem afkoman er með bágasta móti, og það má finna þau allsstaðar í atvinnurekstri landsmanna. Það er því alveg rangt að taka síldarútveginn út úr hvað þetta snertir, enda sýnir reynsla Norðmanna og Svía í síldarútvegsmálum það, að enda þótt einkasölunni hefði verið betur stjórnað, sem ég lýst við að hefði mátt, þá mátti allt að einu búast við stórtöpum og vandræðum.

En að leggja einkasöluna niður, án þess að nokkuð komi í staðinn, er óhæfa, og bætir sízt ástandið frá því sem nú er. Ég hefi átt tal um þetta við útgerðarmenn, sem nýkomnir voru frá Noregi og Svíþjóð, og hafa þeir sagt mér, að lepparnir íslenzku væðu uppi í Svíþjóð, og byðu þar íslenzka síld, á sumri komanda, mjög ódýra, sem stórspilli markaðinum, því að innflytjendurnir sænsku segðu sem svo: Við kaupum af útgerðarmönnurn fremur en leppunum, af því að okkur þykir það tryggara, að síldin fáist þá, en við greiðum ekki meira fyrir síldina en lepparnir biðja hana fyrir. Þess vegna er sízt betra ástand framundan, ef lepparnir fá að leika lausum hala bæði hér og á markaðinum erlendis, sem allt útlit er fyrir nú. Vitaskuld er það ekki einhlítt til að halda uppi verðlagi síldar á heimsmarkaðinum, þó að einkasala sé á Íslandi. Til þess þarf víðtækari samtök. Ég man ekki betur en að það þætti djarft tiltæki hjá einkastöluforstjórunum, er þeir leituðu samkomulags við norska síldarseljendur um það að halda uppi verði síldar á heimsmarkaðinum. Það þótti íhaldsblöðunum ganga landráðum næst. En það mun sýna sig, að það getur ekki gengið til lengdar, að láta síldarsölum vera óskipulagða, og það mun einnig koma á daginn, að það þarf millilandasamninga við framleiðendur nágrannalandanna um söluna.

Ég þykist vita, að þetta frv. hæstv. forsrh. verði samþ. Hæstv. ráðh. var að kvarta yfir því aðan, að hv. sjálfstæðismenn í deildinni hefðu ekki nægilega talað um það, hve mikið þarfamál hér væri um að ræða. Það getur verið, að hann fái í næstu ræðum þeirra það þakklæti, sem hann óskar eftir. En það eitt er vist, ð frá Alþýðuflokknum fær hann engar þakkir fyrir að leggja niður þetta ráð til bjargar síldarútveginum, einungis af því, að Alþýðuflokkurinn gat fengið ráð yfir einkasölunni og starfsemi hennar, og beint henni inn á sínar brautir.