22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég býst við, að ýmsum, sem hlýddu á mál okkar hér, hafi um langan tíma ekki verið ljóst, hvaða mál var á dagskrá, því hv. þm. G.-K. kom víða við sögu. Annars voru það ekki nema fáar aths., sem ég vildi gera út af ræðum hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. G.-K. Ég ætla fyrst að snúa mér að hv. 3. þm. Reykv. Hann talaði fyrst langt mál til þess að þvo hendur sínar og síns flokks um ábyrgð og aðgerðir gagnvart þessu máli. Það mætti segja um þann þvott, að það sé sú tegund þvottar, sem hefir sérstakt nafn og er kennd við mann austur í Gyðingalandi. Eitt atriði í ræðu hv. þm. er fyllileg ástæða til að draga inn í umr., þar sem hann spurði með miklum myndugleika, hver hefði gefið atvmrh. vald til að leggja niður Síldareinkasöluna. Það er rétt af hv. þm. að gera slíka fyrirspurn, því ég er sammala honum um, að slík bráðabirgðalög megi ekki gefa út, nema undir ákveðnum kringumstæðum, ekki nema stj. sé búin að fullvissa sig um, að hún hafi þingvilja um það. Áður en þessi ákvörðun var tekin, var beint fyrirspurn til miðstjórnar flokkanna. Bráðabirgðalögin voru sett, af því að sjáanlegt var, að þingvilji væri fyrir því að leggja niður einkasöluna. Það hefir líka komið fram, að ekki var ástæðulaust að álykta þannig, því þetta frv. er búið að ganga gegnum Ed. þar sem stj. hefir ekki meiri hl. og hefir fengið þar samþ. Það sem gaf mér valdið til að gefa út bráðabirgðalögin var meðvitundin um, að öruggur þingvilji væri fyrir því að gera slíka ráðstöfun. Og ég efast ekki um, að það muni reynast rétt.

Ég ætla ekki að fara neitt út í ummæli hv. þm. G.-K. um þá nafnana Helga Guðmundsson og Helga Briem. Ég sagði og undirstrika það, að þeir höfðu haft svipaða aðstöðu, þegar þeir byrjuðu. mér er kunnugt um það, að hv. þm. var ekki frekar ánægður, þegar Helgi Guðmundsson var skipaður en þegar Helgi Briem var skipaður. Ég ætla að vona það, að hv. þm. verði, eins og hann nú er ánægðari með Helga Guðmundsson en í fyrstu, ánægðari með starf Helga Briem en um skipun hans.

Hv. þm. hélt því fram, að ég væri hinn sjálfsagði málsvari fyrrv. starfsmanna einkasölunnar. Ég lít þannig á, að ef ég í des. hefði tekið ákvörðun og sagt: Það er allt harla gott, sem þarna hefir verið gert, látum það halda áfram, eða ef ég hefði sagt: stj. stendur við hliðina 5 þessu fyrirtæki áfram, þá væri ég hinn rétti málsvari. En þegar ég tók þá ákvörðun, að leggja niður þetta fyrirtæki, þá þykir mér það hörð krafa, að einmitt ég eigi að vera verjandinn.