23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. Seyðf. sagði, að ég hefði ekki haft nein rök, er ég sagði, að tillögur kommúnista hefðu raðið mestu um skipulag og framkvæmd einkasölunnar. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa dálítið upp úr Alþt., sem styður mál mitt. Einkasalan var sett á stofn 1928.

Einn af forstjórum hennar varð Einar Olgeirsson, sem er róttækur kommúnisti. þegar einkasalan var búin að starfa eitt ár, skrifar hann ritgerð í tímarit sitt, „Rétt“. Hann talar þar um ýms stórmál, og þegar hann er búinn að tala um þau öll, þá snýr hann sér að Síldareinkasölunni og segir:

„Öðru máli er að gegna um Síldareinkasöluna. Það er beint hugsmunamál verkalýðsins, hvernig henni er háttað. Síðasta þing gaf þeirri einkasölu formið, skipulagið, en það skorti hið rétta innihald, hann anda og takmark, sem gat gefið henni gildi fyrir verkalýðinn“. — Greinarhöf. telur svo, að framleiðendur hafi of mikinn arð af síldarverzluninni og talar um tvo möguleika, annan að halda fyrirkomulaginu óbreyttu, eða, eins og hann orðar það: „Hinn kosturinn er að láta einkasöluna taka að sér alla söltunina, ráða allt verkafólkið, semja við útgerðarmennina. Til þess yrði ríkið að láta hana fá höfuðstól til rekstrar. Með þessu móti væri tryggt, að ágóði síldaratvinnuvegsins rynni til verkamanna“.

þetta er þá skoðun þessa verkamannaforingja. Strax þegar Síldareinkasalan er búin að standa eitt ár, þá fer þessi kommúnisti að berjast fyrir því, að allur ágóði renni til verkamannanna í landi, en hvorki til útgerðarmanna né sjómanna. Nú skulum við næst sjá það, sem stendur í frv. því, er hv. þm. Ak., Erl. Friðjónsson, bar fram á þinginu 1929 og stutt var af stjórnarliðinu. Hv. 1. þm. S.-M. lýsir því frv., sem var breyt. á l. um Síldareinkasöluna, svo í frs.-ræðu hér í hv. d.: Hann talar fyrst um brtt. við 1. gr. 1. og segir svo: „Að vísu kemur þetta þar og því aðeins til framkvæmda, að einkasalan hafi yfir að ráða söltunarstöðvum og tunnubirgðum. Verulegir annmarkar á verkun síldar til og frá hafa komið í ljós næstl. ár og hefir stj. einkasölunnar talið þetta nauðsynlegt, einkum vegna mats og eftirlits. Það hefir reynzt nokkrum örðugleikum bundið að tryggja flokkun og söltun síldar þar sem umboðsmenn hafa ekki verið nægilega margir eða nærstaddir, einkum þegar mikil síld berst á land. Mér virðist þessi breyt. þörf og sjálfsögð í alla staði“. Um brtt. við 4. gr. segir hann: „Brtt. á 4. gr. lýtur að því að auka verksvið útflutningsnefndar einkasölunnar og færa út kvíarnar að því leyti“. Um brtt. við 5. gr. segir hann: „Breyt, á 5. gr. er e. t. v. sú róttækasta og óvinsælasta og fer í gagnstæða átt við tilgang laganna frá 1928. Er hér gert ráð fyrir eða heimilað, að ríkissjóður ábyrgist rekstrarlán fyrir einkasöluna, nokkurn veginn eftir þörfum, en þó aðeins um stuttan tíma í senn og með tryggilegum áskilnaði um endurgreiðslu lána af andvirði síldarinnar áður en því er skipt“. Ég vil nú ekki þreyta hv. d. með meiri upplestri, en ég vildi sýna með órækum rökum, að brtt. við l. frá 1928 fara allar í sömu átt og forstjórinn taldi nauðsynlegt. Þetta var allt samþ. og Síldareinkasalan tók síldarsöltunina í sínar hendur og lét fara að vinna á hinu fræga „rauða torgi“1) með þeim árangri, sem á daginnu er kominn. Ef þetta eru ekki næg rök fyrir hv. þm. Seyðf., þá veit ég ekki, hvaða rökum er hægt að beita við hann, sem dugi. Einkum ætti þetta að nægja til viðbótar við það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, er hann talaði um sambandið, sem var á milli hæstv. dómsmrh. og Einars Olgeirssonar. Ég fer svo ekki að sinni lengra út í þessi rök. En ef hv. þm. Seyðf. óskar eftir meiru, þá er hægt að bæta fleiri rökum við, þegar málið kemur til 2. umr.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að það, sem hefði eyðilagt Síldareinkasöluna, væri það, að eftir till. íhaldsmanna hefði síldarsöltunin verið gefin of frjáls. Hv. þm. Ak. hefir nú svarað þessu, en til viðbótar vil ég þó lofa hv. þm. að heyra, hvað flokksbróðir hans sagði um saltið, sem keypt var, og skal ég þá með leyfi hæstv. fors. lesa upp úr blaði part af frásögn frá fulltrúafundi Síldareinkasölunnar:

„Finnur Jónsson spurði, hvort J. Östersjo hafi nokkurntíma verið látinn bæta 880 tunnur af úrsalti, sem frá honum hafi komið. Saltið hafi verið blakkt á litinn, með slori, fiskuggum og jafnvel heilum fiskum innan um saltið“. — — „Guðm. Skarphéðinsson kvað þetta salt, 880 tunnur, sem komið hafi með e.s. Ilse til Siglufjarðar, ekki vera einsdæmi, því að heill farmur af slæmu salti hafi komið með e.s. Varild til veiðistöðvanna við Eyjafjörð. Slæmt salt myndi eiga mikinn þátt í síldarskemmdum, sem orðið hefðu í sumar“. — Þetta segja nú flokksbræður hv. þm. Seyðf. um orsökina að skemmdum þeim, er hann vildi kenna íhaldsmönnum. Vona ég, að hann taki vitnisburð flokksmanna sinna gildan.

Það er ekki rétt, að við, sem erum á móti Síldareinkasölunni, séum á móti öllu skipulagi, þótt við gætum ekki samþ. þá óviturlegu meðferð, sem höfð var á því máli. Og til eru þeir menn innan þessara veggja, sem mikið erfiði hafa á sig lagt, til þess að skipuleggja saltfisksöluna. Það eru þeir, sem myndað hafa fisksölusamlagið. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á, að ræða þessi átti að vera stutt aths., til að bera af sér sakir. Ég vil því mælast til, að hann stytti mjög ræðu sína úr þessu! ) — ég veit, að ég muni reyna mjög á þolinmæði hæstv. forseta, en til þess að færa fram fullgild rök í málinu, gat ég ekki komizt af með mjög stutta aths.

Ég á ætlaði að minnast á það, að samkv. því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, því virðist sem stj. sé tvískipt í þessu máli. Hv. þm. lýsti sambandi hæstv. dómsmrh. við stj. Síldareinkasölunnar, og þarf ég eigi að endurtaka það. En hæstv. atvmrh. leit öðrum augum á þetta, því hann gaf út bráðabirgðalög um afnám einkasölunnar. En nokkrum vikum síðar er svo birt skýrsla Böðvars Bjarkans, sem var trúnaðarmaður ríkisstj. í stj. Síldareinkasölunnar. Telur hann allt í sæmilegu lagi. þetta bendir til þess, að stj. og flokkurinn muni vera tvískipt um þetta mál, og að sumir hafi viljað halda Síldareinkasölunni áfram, þótt atvmrh. vildi það ekki. Skal ég svo láta staðar numið, enda get ég þá hætt við, þegar málið kemur til 2. umr.

1) Svo var „plan“ einkasölunnar nefnt á Siglufirði.