23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Einar Arnórsson:

Ég hefi ekki hugsað mér að bæta við þær líkræður eða æfiminningar, sem fluttar hafa verið um Síldareinkasöluna sal. Mig furðar ekkert á því, þó að sumir jafnaðarmenn, eins og hv. þm. Seyðf. og hv. 3. þm. Reykv., harmi þetta óskabarn sitt og flytji yfir því klökkvar ræður. Hv. þm. Seyðf. gat um töpin á síldarútveginum 1919, sem einstakir menn urðu fyrir, og það er satt, að þessi töp voru tilfinnanleg, en þó var það ekkert í samanburði við þau töp, sem orðið hafa á Síldareinkasölunni, þegar á það er litið, að einkasalan hefir ekki greitt tolla til ríkissjóðs eins og henni bar og ekkert verð til síldareigenda, eða svo að segja ekkert. Ég hefi ekki heyrt annað en að þeir, sem töpuðu á síldarútveginum 1919, hafi greitt fullkomlega tolla til ríkissjóðs og verð fyrir voruna til síldareigenda eða sjómanna. En mér er ekki kunnugt um, að neinir hafi borið úr býtum viðunanlegan hlut frá Síldareinkasölunni síðastl. ár, nema e. t. v. verkafólk, sem vann að síldarsöltun á Norðurlandi. Eftir þessa frækilegu frammistöðu Síldareinkasölunnar við sölu síldarinnar vill hv. þm. Seyðf. láta ríkið taka að sér alla utanríkisverzlun á íslenzkum afurðum, þar sem síldarverzlunin er vitanlega einn þátturinn. Honum finnst, að reynslan hafi verið svo ágæt í þessum efnum, að nú sé því tímabært að færa út kvíarnar og taka ríkiseinkasölu á kjöti, ull, gærum, fiski o. s. frv., og yfirleitt öllum útflutningsvörum. (JAJ: Þá væri gaman að vera kaupfélagsstjóri). Já, ef hv. 2. landsk. væri ekki á ferðinni með frv. sitt um að banna starfsmönnum að taka umboðslaun. Annars er það undarlegt, hvað jafnaðarmenn hafa mikla trú á ríkisrekstri, jafn illa og hann hefir gefizt. Tóbakseinkasalan byrjaði með því að hækka stórum verð á tóbakinu að öllu óbreyttu, innkaupsverði og gengi, því þó að ísl. krónan lækkaði síðastl. haust, þá lækkaði eftir sama hlutfalli gjaldeyrir þeirra landa, sem skipt var við. Auk þess hefir tóbakseinkasalan tekið við miklum birgðum af verzlunarfirma, sem má telja hana framhald af.

Hv. þm. Seyðf, var að furða sig á því, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki þegar hafa hafizt handa til lagfæringar á verzlunarólaginu í Rvík. Hv. þm. tekur sem sé trúanlega skýrslu skattstjórans um þetta efni á sama hátt og biblíutrúarmaðurinn trúir öllu í biblíunni bókstaflega, eða Múhamedstrúarmaðurinn kóraninum. Ég vil ekki áfellast einstakar trúaðar salir, sem taka vissum trúarjátningum an allrar gagnrýni. Trúartilfinningin er fólgin í því, að þeir sem trúa, taka allt trúanlegt, sem fyrir þá er lagt, hvort sem það er sannleikanum samkv. eða ekki. En við hinir, sem ekki trúum bókstaflega, hljótum að hafa leyfi til að athuga og gagnrýna það sem fyrir okkur er lagt.

Eftir skýrslu skattstjórans á verzlunarkostnaðurinn í Rvík að nema árlega 13–14 millj. kr., sem hlýtur að koma fram í álagningu á vörurnar. Þessi verzlunarkostnaður nemur þá 460 kr. á hvern íbúa höfuðstaðarins, þegar miðað er við, að íbúatalan sé 28 þús. Ef reiknað er með 12 manna fjölskyldu, þá nemur sú upphæð, sem hún þarf árlega að greiða í verzlunarkostnað, 5600 kr., og ef gert er ráð fyrir, að álagningin sé 1/3 söluverðsins á vorunum, þá verður þessi fjölskylda að greiða 17 þús. kr. á ári fyrir erlendar vörur. En 6 manna fjölskylda þarf þá vitanlega að greiða helmingi minni upphæð, eða 8500 kr. Ef þetta skyldi nú vera rétt áætlað, þá er óskiljanlegt, hvernig bæjarbúum skapast tekjur til að greiða slík útgjöld. Ríkið geldur ekki ráðherrum sínum svipað því nógu há laun til þess. Eftir því sem mig minnir eru þau 10 þús. kr. með dýrtíðaruppbót. bæjarbúar þyrftu því að hafa einhverjar undratekjur, til þess að þola slík útgjöld. Verkamaður, sem hefir 6 manna fjölskyldu, þyrfti allt árskaup sitt til þess að greiða álagninguna eina og hrykki varla til. Að vísu munu sumir hafa meira kaup en hér er gert ráð fyrir, en þó mundi verzlunarkostnaðurinn höggva svo verulegt skarð í þeirra tekjur, að þá ræki algerlega í strand. Mig furðar ekkert á því, þó að hæstv. stj. þyti ekki upp til handa og fóta með að breyta verzlunarfyrirkomulaginu í bænum, þó að hún læsi þessa skýrslu. Ég hugsa, að sá, sem skýrsluna gerði, hafi ekki athugað málið nógu vel, áður en hann gaf hana út. Það er ekki ástæða til þess að draga neitt úr því, sem segja þarf um þetta, því að hv. þm. Seyðf. rís aftur upp við 2. umr. og svarar fyrir sig. Hv. þm. Sey ðf. mætti sjálfum vera kunnugt um verzlunarkostnaðinn hér í bænum, þar sem hann hefir sjálfur starfað hér við kaupfél., sem seldi vörur fyrir sama verð og aðrar verzlanir. En ekki hefir álagningin verið of mikil þar, og hafði kaupfélag hans þó á tímabili mikla umsetningu, því að ekki reið hann feitum hesti frá því starfi eða kaupfélagið. Upphaflega voru kaupfél. tvö hér í bænum, en síðar voru þau sameinuð í eitt félag, og í því voru helztu áhrifamenn þeirra flokka, sem hv. þm. Seyðisf. kallar Alþýðuflokkinn — krata og kommúnista. Þessu kaupfél. lyktaði þannig, að hverjum kaupfélagsmanni var gert að greiða 150 kr. upp í skuldir félagsins, þrátt fyrir miklar eftirgjafir og afskriftir hjá þrem lánardrottnum félagsins. Síðan var hv. þm. Seyðf., sem álitinn var heppilegasti maðurinn, fenginn til að veita fél. forstöðu, en þó var ekki hægt að bjarga því við.

Þá má geta þess, að stj. stofnsetti á síðastl. ári ríkisverzlun á fiski, sem kvað hafa verið seldur ódýrt. En ekki mun útkoman á því fyrirtæki ríkisins vera nein undantekning frá reglunni um afkomu slíkra stofnana. En það hefir verið sagt, að þangað hafi verið komin þyrping af vinnumönnum til þess að fyrirbyggja, að nokkur verzlunarhagnaður yrði. Sumir segja, að þeir hafi verið 7, þessir starfsmenn, aðrir að þeir hafi verið 9. (JAJ: Verzlunarkostnaðurinn var talinn að nema 26%). Það lítur út fyrir, að verzlunarkostnaðurinn hafi verið sízt minni en hjá einstaklingum. Og svo var farkosturinn, sem veiða átti fiskinn, bundinn við hafnargarðinn eftir að fiskverzlun þessi, sem ríkið rak, var í rauninni komin á höfuðið. Ef álagningin er of há hjá einstaklingum, væri gott, að kaupfél. eða slíkar stofnanir hefðu „kontroll“ með, að álagningin hjá þeim sjálfum fari ekki úr hófi fram. En þetta hefir heim ekki tekizt hrátt fyrir það, þó að beztu kröftum, að dómi sjálfra þeirra, hafi verið tjaldað fram.

Annars furðar mig mikið á þeirri aðdáun sem jafnaðarmenn á Alþingi virðast hafa á öllu því, sem heitir ríkisrekstur, enda skýtur þetta nokkuð skökku við það, sem flokksbræður þeirra í nágrannalöndunum hafa gert, því að mér vitanlega hafa flokksbræður þeirra þar ekkert gert til þess að koma á ríkisrekstri hjá sér. E. t. v. er það ekki rétt að kalla þessa menn flokksbræður, enda eru „socialdemókratarnir“ í Danmörku meira hægfara en t. d. hv. þm. Seyðf., sem hallast meira austur á boginn til Rússlands.

Danir hafa þrátt fyrir það, þó jafnaðarmenn fari þar með völd, ekki gert neitt verulega til þess að koma á þjóðnýtingu. Sama er að segja um Svíþjóð, þó að jafnaðarmenn hafi verið þar við völd árum saman, hafa þeir ekki tekið upp þjóðnýtingu. Og Bretland, sem haft hefir tvisvar jafnaðarmannastj. á síðari árum, hefir ekki heldur beitt sér fyrir ríkisrekstri eða þjóðnýtingu. Og nú er jafnaðarmannastj. í Þýskalandi, og hefir ekki heyrzt, að hún geri neitt í þessu efni. (Forseti: ég vil benda á, að fundartími er nú þegar að verða úti, en ef hv. þm. á mikið eftir af ræðu sinni, myndi rétt að fresta henni). Nei, ég hefi þegar lokið máli mínu, en vildi þó að endingu bæta við, að ég býst við, að „sócialistarnir“ í næstu löndum séu ekki eins mikið fyrir það að þjóðnýta alla skapaða hluti, eða koma á ríkisrekstri heima fyrir, eins og í fljótu bragði virðist vera efst á baugi hjá „krötunum“ og „kommúnistunum“ íslenzku.