09.04.1932
Neðri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1933

Haraldur Guðmundsson:

Stutt aths. segir hæstv. forseti, en hún þarf að vera löng.

Fyrst þarf ég að víkja að því, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan. Hans höfuðrök fyrir því, að ekki væri ástæða til að samþ. till. um atvinnubótastyrk voru þau, að í fyrra hefði því einnig verið haldið fram, að þörf væri á auknum framkvæmdum vegna yfirvofandi atvinnuleysis, en svo hefði raunin orðið sú, að hægt hafi verið að komast af til þessa án þess að grípa til slíkra framkvæmda, nema án mjög litlu leyti.

Þetta er öllu meiri óvífni og blygðunarleysi en ég hefði búizt við af hæstv. ráðh. það er marg upplýst hér í hv. deild, að ástæðan til þess að ekki hefir verið meira fé eytt úr ríkissjóði til atvinnubóta er blátt áfram sú, að ríkisstj. hefir neitað að greiða féð af hendi, þrátt fyrir fjölda umsókna og ákveðnar tillögur atvinnunefndar. Fólk hefir komizt af, segir hæstv. ráðherra!

Þótt ekki verði vitað með vissu, að almenningur hafi beinlínis liðið sult á liðnu ári, þá leyfi ég mér að draga mjög í efa, að hæstv. fjmrh. hafi nokkra minnstu hugmynd um, hvernig fólkið hefir komizt af.

Ég man eftir því hér á árunum, þegar verið var að ræða hér á þinginu um undanþágu handa Hellyerútgerðinni í Hafnarfirði, að núv. hæstv. fjmrh. var því mjög fylgjandi, að undanþágan yrði veitt vegna atvinnuleysis í Hafnarfirði. En margir voru því andvígir, og spurði þá hæstv. fjmrh., hvaða sannanir menn vildu fá fyrir því, að þörf væri á að bæta úr atvinnuleysinu í Hafnarfirði, hvort menn vildu bíða eftir því, að komið væri með beinagrindur horaðra atvinnuleysingja úr Hafnarfirði. Ef ég hefði sagt þetta, byst ég við að mönnum hefði þótt þm. Seyðf. taka upp í sig. En nú spyr Ég: Ælar hæstv. ráðh. að bíða eftir slíkum sönnunargögnum. Ég efast um, að ástandið í Hafnarfirði þá hafi verið verra en á Seyðisfirði nú. — Það er náttúrlega auðvelt að segja þá sögu í fjórða sinn hér í hv. deild, að Seyðisfjörður hafi lagt í sparisjóð um 2 þús. kr. af því atvinnubótafé, sem hann fékk á öndverðum vetri og ef til vill röksemdafærsla við hæfi hæstv. ráðh. að draga þar af þá ályktun, að engin þörf sé fyrir atvinnubótafé neinstaðar á landinu. Ég hefi skýrt frá því áður, hvers vegna Seyðisfjörður eyddi ekki öllu atvinnubótafenu síðastliðið haust, en get vel endurtekið það enn, hæstv. ráðh. til uppbyggingar.

Síðastliðið haust var ástandið á Seyðisfirði svo afskaplegt, að ekki var annað fyrirsjáanlegt en að fólk myndi beinlínis líða skort, þegar fram á vetur kæmi. Peningar fengust engir lofaðir til atvinnubóta fyrr en komið var fram í nóvember, og var þá þegar byrjað á atvinnubótavinnu. En skömmu síðar sendi forsjónin síldina inn á fjörðinn, og það í svo ríkum mæli, að segja matti, að fjörðurinn fylltist af síld. Var þegar byrjað að veiða og salta síld, og veitt og saltað að mestu um 400 tunnur. Bætti þetta svo úr atvinnuleysinu, að ákveðið var að hætta atvinnubótavinnunni meðan svo stæði. Var þá búið að vinna fyrir nálægt 5000 kr., en eftir af atvinnubótafénu um 2000, — sem lagt var í sparisjóð í bili, og er sú upphæð lægri en bæjarsjóður sjálfur áður hafði lagt til atvinnubótanna. Það var ekki meining bæjarfélagsins að fá atvinnubótafé til þess að eyða því nema í brynni þörf. Þetta ætti því einmitt að vera sönnun þess, að atvinnubótafé verði ekki notað á Seyðisfirði, nema full og rík ástæða sé til, og því óhætt að trúa kaupstaðnum til að fara vel með slíkt fé framvegis. Þess vegna þykir mér hart, að mér sé legið á hálsi fyrir það, að hafa att minn þátt í því, að þetta fé yrði geymt, en ekki eytt að þarflitlu. Ef hæstv. ríkisstj. hefði haldið jafnvel á umframtekjum sínum í góðærinu, væri ástand ríkissjóðs betra en nú er það. Hæstv. fjmrh. er velkomið að segja þessa sögu eins oft og hann vill, en hann skýtur aðeins fram hjá marki, þegar hann notar hana sem rök gegn því, að þörf sé á að hafa fjárhæð, sem um munar, í fjárl. til hjálpar gegn því atvinnuleysi, sem vofir yfir þjóðinni.

Hvað viðskiptajöfnuðinn við útlönd snertir, þá fæ ég ekki seð, að hann verði óhagstæður vegna þeirra fjárhæða, sem fara til atvinnubóta, nema að síður sé. Fólkið borðar jafnt, hvort sem það lifir á atvinnubótavinnu eða fátækrastyrk, nema tilætlunin sé að svelta þurfamenn.

Hæstv. fjmrh. sagði áðan, að það hvíldi skylda á ríkinu að sjá þeim konum og börnum farborða, sem líða skort eða svelta. Þetta er sagt í sjálfri stjskr., og er því ekki uppgötvun ráðh. En hvernig er svo þessi skylda rækt t. d. hérna í höfuðstaðnum? Nálægt 200 manns borða daglega, að því er blöðin segja, náðarbrauð hjá einstökum safnaðarmönnum hér í Rvík. Ég heyrði skýrt frá því í útvarpinu, skömmu aður en ég for á þing, hvernig ástatt væri hjá sumu því fólki, sem þangað sótti, þegar matgjafir þessar byrjuðu. það var sagt frá því, að matgjafir þessar væru mikið sóttar, að börn kæmu gangandi alla leið innan úr Laugaholti og sunnan frá Skerjafirði til að fá að borða og að þau gætu ekki keypt sér far með strætisvagninum. Frá því var einnig skýrt, að einn daginn hefðu komið þrír menn, sem ekki hefðu bragðað mat í 3–4 daga, og hefðu þeir skýrt frá því, að þeir lægju sem mest í rúminu, til þess að þola betur sultinn. Frá þessu og mörgu öðru í sambandi við matgjafir safnaðanna var skýrt í útvarpinu. Vill ráðh. enn bíða eftir beinagrindinni?

En svo að ég víki aftur að viðskiptajöfnuðinum, þá vil ég taka það fram, að ef þetta fólk á að lifa, þá verður að flytja inn jafnmikinn mat, hvort sem fólkinu er hjálpað með matgjöfum, sveitarstyrk eða atvinnubótum, en ef það er veitt sem ölmusa, þá kemur ekkert á móti, en sé veittur atvinnubótastyrkur, þá verða not af vinnu fólksins, en einmitt það virðist nú vera mesti þyrnir í augum hæstv. ráðh. og annara fjármálaspekinga flokka hans, eða flokkum hans báðum.

Ég veit ekki betur en að hæstv. ráðh. hafi það á valdi sínu að skammta innflutning til landsins. Gjaldeyririnn er skammtaður og miðaður við kaup á nauðsynlegum vörum. Hann hefir innflutningshöftin í valdi sínu og getur heitt þeim svo stranglega sem hann vill. Ef hæstv. ráðh. þykist ekki öruggur með þetta, þá get ég ekki skilið það öðruvísi en svo, að hann vantreysti sjálfum sér. Ekki er hætt við, að þessir menn fari til útlanda og eyði atvinnubótakaupinu í býlífi. A. m. k. fá þeir þá ekki atvinnubótavinnu á meðan.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að þjóðin getur ekki lifað á atvinnubótum einum saman. Þá mundi þessi eina milljón ná skammt og jafnvel þessar 11 milljónir, sem hæstv. ráðh. hefir talað svo mikið um. Sú eina varanlega bót er, að atvinnuvegirnir geti haldið áfram og skilað fólkinu lífvænlegu kaupi. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Heldur hann, að það bæti afkomu atvinnuveganna, að í stað þess að láta fólkið vinna gagnleg verk, sé því haldið upp á ölmusugjöfum og af sveitarfélögunum? ég er þeirrar skoðunar, að vinnu þeirra manna, sem atvinnulausir eru, megi mjög mikið nota til að koma á betri skilyrðum fyrir atvinnuvegina og þar með flýta fyrir, að þeir geti borið sig. (Forseti: Hv. þm. er búinn að halda tvær ræður, og þetta er orðin nokkuð löng aths.). Ég vil mælast til þess, að hæstv. forseti leyfi mér að segja nokkur orð ennþá, þar sem bornar hafa verið á mig sakir. (Forseti: ég vona, að hv. þm. gæti þingskapanna). Hæstv. forseti tekur þá af mér orðið. (Forseti: Ég neyðist til þess, ef hv. þm. vill ekki hlýða þingsköpunum. — HV: Hæstv. forseti hefir leyft hér hálftíma aths. — Forseti: Það er ekki rétt hjá hv. þm. — HV: Nú, hann hefir leyft hv. þm. G.-K. að flytja hér aths., sem tók hálftíma. — Forseti: það er alls ekki rétt. — ÓTh: Nei, það er nú eitthvað annað en að það sé rétt.). — ég er líka sammála Hæstv. ráðh. um það, að stuðningi til bænda og smáútgerðarmanna verði að vera nokkuð öðruvísi háttað en til verkamanna. Því verður ekki neitað, að þeir menn, sem hafa þá undir höndum, eru ekki jafnilla staddir, að því er snertir þarfir líðandi stundar, eins og þeir, sem ekkert hafa undir höndum eða fyrir sig að leggja nema kaup líðandi dags. Bændur búa að því í bili, að þeir geta flestir birgt sig upp að haustinu til næsta vors, svo að hjá þeim er ekki aðkallandi skortur, og flestir hafa þeir næga mjólk og ýmsan mat af búum sínum. Sú hjálp, sem þarf að veita heim, er, að þeir þurfi ekki að flosna upp af jörðum sínum, og ég hefi fyrir mitt leyti bent á, hvernig ég vil láta létta undir með þeim og sömuleiðis smáútgerðarmönnum.

Um ástandið í Hafnarfirði og á Ísafirði sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Ég veit, að ástandið er þar slæmt og gjaldgeta þar lítil. — Mér er ekki kunnugt um þessa sögu, sem hæstv. ráðh. sagði um niðurjöfnunina í Hafnarfirði, sem ekkert varð úr. En jafnvel þótt hæstv. ráðh. skýrði þar rétt fra, þá afsannar það ekki það, sem ég sagði, að hægt væri að beita tekju- og eignarskattinum meira en gert er. Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði um tekjuskatt í öðrum löndum og um þá „jafnaðarmannaforingjana“ Snowden og Mac Donald, þá vil ég benda honum á, að þeir eiga ekki miklum vinsældum að fagna meðal jafnaðarmanna í Englandi um þessar mundir. Þeir eru nú farnir úr jafnaðarmannaflokknum og hafa myndað þjóðstjórn með borgaraflokkunum, sem mér skilst, að hæstv. ráðh. haldi, að sé einhver sú fullkomnasta pólitíska fyrirmynd í þessum heimi, og get ég trúað, að hann hugsi sér að hafa það eitthvað svipað hér, ef færi gefst.

En svo að ég víki að tekjuskattinum í Englandi, þá er hann, samanlagður supertax og venjulegur tekjuskattur, þar hæstur 50%, að vísu af hærri tekjum en hér gerast, eða 600 þús. kr. og þar yfir, en almenni tekjuskatturinn er 20% og leggst ekki á nema nokkuð háar tekjur, því að skattfrjálsar tekjur eru þar miklu hærri en hér á landi. Auk þess er gerður nokkur frádráttur á lægstu skattskyldum tekjum frá hinum almenna 20% skatti. [ Fundarhlé.]