13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. Borgf. hefir að mestu tekið það fram, sem ég vildi hér sagt hafa. — Þegar þetta mál var til umr. í sjútvn., hafði sú fregn ekki enn borizt til eyrna nm., sem hv. þm. Borgf. hefir nú staðfest, að skilanefndin mundi ætla að krefja aftur þessar 2 kr., sem búið er að greiða sjómönnum og útgerðarmönnum út á síldina. Að vísu er krafan um þetta ekki komin fram formlega ennþá, en reikningarnir, sem skilanefndin hefir sent út, bera það með sér, eins og hv. þm. Borgf. drap á, að ekki virðist eiga að taka tillit til innleggs manna hjá einkasölunni, heldur aðeins til úttektarinnar. Skil ég ekki, að það geti komið til mala, að skilanefndin krefji þessar 2 kr. inn aftur, og þó að slíkt kunni að hafa hvarflað að n., er óframkvæmanlegt að innkalla þessa peninga í flestum tilfellum. Það kann að vera hægt í einhverjum fáum stoðum, en er óframkvæmanlegt hjá öllum fjöldanum. — Ég hefði kunnað því bezt, þar sem þessar upplýsingar eru komnar fram í málinu nú, en lágu hinsvegar ekki fyrir í n., þegar málið var afgreitt, að málið væri því tekið út af dagskrá nú, svo að n. gæfist kostur á að hafa tal af skilanefndinni. Vil ég því skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann mundi ekki geta fallizt á að taka málið út af dagskrá að þessu sinni, svo að n. gefist tækifæri til að athuga þetta, sem svo mjög skiptir hag allra þeirra, sem skipt hafa við þetta fyrirtæki. (Forsrh.: Má ekki eins athuga þetta milli umr.?) Já, eða þá það.

Að því er hitt atr. snertir, hverju fram hafi farið um þetta fyrirtæki, vil ég segja það, að þótt það sé að vísu rétt, að aðfinnslur í þessum efnum hafi aðeins komið fram í blaðagreinum, eins og hæstv. forsrh. sagði, og reyndar hér á sjálfu Alþingi líka, og stj. hafi þannig ekki borizt neinar beinar kærur út af þessu, er það víst, að óstjórn síldareinkasölustj. var búin að leiða fyrirtækið út í það öngþveiti í haust, að hæstv. ráðh. sá sig tilneyddan til að grípa til þess, sem kalla verður örþrifaráð, til þess að stöðva framhaldandi tap ríkissjóðs á einkasölunni. Sýnist mér tæplega annað rétt fyrir stj., vegna allra þeirra, sem hér eiga hlut að máli, en að láta fara fram þessa rannsókn, sem hv. þm. Borgf. nefndi, að þyrfti að gera, þótt beinar ákærur hafi að vísu ekki borizt til stjórnarráðsins út af þessum málum. Stj. hefir og sjálf viðurkennt það, með því að leggja einkasöluna niður með bráðabirgðalögum, hve mjög pottur hefir verið brotinn í þessum efnum. Þá er ennfremur til þess að líta, að fram hafa komið raddir um það, að það gæti orkað tvímælis, hvort rétt hefði verið að leggja einkasöluna niður, jafnframt því sem óskir hafa komið fram um það, að eitthvað verði sett í staðinn. Slík rannsókn mundi leiða í ljós, bæði það, hvort rétt var að leggja einkasöluna niður í haust, og gefa bendingar um það, hvert fyrirkomulag er heppilegast að hafa á þessum atvinnurekstri í framtíðinni.