13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég tók það fram við 1. umr. þessa máls, að ég er því andvígur, að þetta frv. fari í gegn, meðan allt er óvíst um það, að eitthvað annað verði upp tekið í stað Síldareinkasölunnar. Er nú svo áliðið þings, að ekki lítur út fyrir, að meiningin sé að taka upp annað skipulag á síldarútgerðinni, ef einkasalan verður lögð niður, og tel ég ógerlegt að samþ. þetta frv. á þessu stigi málsins. Rakti ég það allýtarlega við 1. umr. málsins, hvernig þetta horfir við frá sjónarmiði okkar jafnaðarmanna, og skal því ekki endurtaka það hér nú.

Út af ummælum, sem hér hafa fallið um það, að reikningar Síldareinkasölunuar hafi verið falsaðir, skal ég taka það fram, að ég lít svo á, að þótt skipuð hafi verið sérstök skilanefnd, eigi samt að fara fram lögreglurannsókn á þessu. En út af því, sem hér hefir verið talað um, að skilanefnd muni hafa í huga að krefja aftur þær 2 kr., sem greiddar hafa verið út á síld síðasta ár, þá vil ég taka það fram, að ég tel það ekki geta komið til nokkurra mála. Að vísu kann að mega líta svo á, að til þess hafi n. lagalegan rétt, en allir, sem til þekkja, telja, að í flestum tilfellum sé ókleift að fá það fé aftur. Ég ætla, að það hafi verið hv. þm. Vestm., sem vek að því, að rétt væri að framkvæma sérstaka rannsókn á stjórn einkasölunnar yfirleitt, til þess að athuga, hvaða fyrirkomuleg væri vænlegast á síldarverzluninni, ef einkasalan yrði lögð niður. Ég mundi sízt vera á móti því, að slík rannsókn væri látin fram fara. En ég get ekki seð, að hún gæti verið samrímanleg rannsókn á því, hvort um falsaða reikninga eða eitthvað þessháttar væri að ræða. Ef hv. þm. vill koma með till. í þá átt að setja n. til rannsóknar á rekstri einkasölunnar með það fyrir augum að komast að niðurstöðu um það, hvaða fyrirkomulag væri vænlegast í þessu efni, þá gæti ég sennilega orðið honum samferða. Í sambandi við það, sem hv. þm. Borgf. talaði um misfellur hjá stjórn Síldareinkasölunnar og e. t. v. falsaða reikninga, þá vék hann að því, að ríkisstj. hefði sýnt mikla röggsemi, þegar hún sendi mann til Hesteyrar til þess að rannsaka síldarmálin. þetta mun rétt vera, og sú rannsókn leiddi það í ljós, að síldarmálin voru stærri en þau áttu að vera. Í sambandi við þetta vildi ég beina þeirri spurningu til stj., hvort þar með sé hennar aðgerðum lokið. — Ég sé svo ekki ástæðu til við þessa umr. að fara fleiri orðum um þetta, en skal taka undir það með hv. þm. Vestm., að æskilegast væri, að þessari 2. umr. væri frestað, þar til skýlaust svar væri komið frá skilanefndinni um það, hvort hún ætlaði að krefja inn aftur þessar 2 kr., sem greiddar hafa verið fyrir síld.