13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég heyri, að það eru komnar fram till. um að fresta þessu máli, og ástæðan er sú, að hv. þm. Borgf. hefir minnzt á reikninga, sem komu til tveggja kjósenda hans, þar sem aðeins er getið um skuldaliðina, og hv. þm. S.-M. hefir upplýst, að hann hafi fengið reikning frá skilanefndinni, sem ekki var réttur, en var honum í vil. Ég get ekki seð, að þetta komi nokkurn skapaðan hlut við samþykkt þessa frv. Ef um mistök er að ræða, eru þau annaðhvort frá fyrrv. einkasölustj. á bókfærslu, eða þá hjá skilanefnd. Það á ekki að lögfesta það með frv., hverjir skuli vera áfram í skilanefnd. Ef það reynist við athugun, að þeir standi ekki vel í stöðu sinni, þá verður að skipta um menn. En ég get ekki seð, að það komi þessu máli neitt við, það er ekkert samband þar á milli. Það er ástæðulaust fyrir hv. þm. Borgf., að koma með svona hlut í sambandi við þessar umr. Hann á að tala um það við skilanefndina og ríkisstj. Það má vera eðlilegt, að hann geri kröfu um það að rannsaka stj. einkasölunnar, en reikningarnir, sem hann er með, eru óviðkomandi þessu frv., hvort sem þeir tilheyra kjósendum þessa hv. þm. eða öðrum.