13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jóhann Jósefsson:

Ég var víst sá fyrsti, sem stakk upp á því, að rétt væri að taka málið út af dagskrá, og að n. fengi að kynna sér þetta atr., sem henni var ekki kunnugt um, þegar málið var þar til umr. ég skal alveg fallast á það, sem hv. frsm. og aðrir hafa sagt, að þetta megi gera án þess að taka málið út af dagskrá. En mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að hv. frsm. skuli álíta, að þetta framkvæmdaratr. skilanefndar komi þessu máli ekkert við. (BJ: Það er þessu frv. óviðkomandi). Annars vil ég benda á það, að mér finnst ekki rétt að tala um þetta sem bókfærsluform hjá skilanefnd. Það eru fleiri en hv. þm. Borgf., sem vita um slíka reikninga. Það hafa fleiri fengið þá, mér er kunnugt um marga. Ég geri ráð fyrir, að skilanefnd hafi tekið upp þessa reglu, að færa til útgjalda þeim, sem hafa fengið þessar 2 kr. útborgaðar, en ekki neitt til inntekta, og mundi það þykja slæm viðskiptaregla hjá einstaklingum.

Það er auðséð, að skilanefnd ætlar að halda opinni þeirri leið, að gera einkasöluna þannig upp, að krefja inn þessar 2 kr., sem útborgaðar voru í sumar. Ég geng út frá því, að þessu sé þannig varið, en það sé ekki af vanga. En það, að hv. þm. S.-M. var reiknuð inneign, sem hann kannaðist ekki við, getur náttúrlega stafað af vangá. Þetta framkvæmdaratr. einkasölunnar heyrir undir afskipti þingsins. Að því er snertir ummæli hv. þm. Seyðf. vil ég segja, að ég er þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að athuga framtíðarúrlausn þessa máls. Ég þykist alveg viss um, að þó nú sé alveg slegið slöku við allt eftirlit þar norður frá, þá sé nauðsynlegt, að eitthvert skipulag verði haft á síldarframleiðslunni og sölunni. Ýmsir hafa bent á leið í þessu efni, en ég bjóst við, að við Íslendingar gætum lært meira af því að taka helztu síldarframleiðsluþjóðir og þeirra skipulag okkur til fyrirmyndar en við höfum gert hingað til. Ég skal ekki fjölyrða um það nú í hvaða formi þessi skipulagning ætti að vera. Það hlýtur að vera verkefni þings eða stj. að finna grundvöll, sem er viðunandi fyrir afkomu síldarútvegsins framvegis.