19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jóhann Jósefsson:

Þegar mál þetta var hér til 2. umr., varð nokkuð tíðrætt um það, að reikningar þeir, sem borizt höfðu frá skilanefnd þeirri, er hefir bit Síldareinkasölunnar með höndum, væru þannig úr garði gerðir, að nokkuð óvanalegt mætti telja, þar sem þeir sýndu aðeins úttekt, en ekkert innlegg. Þá varð líka mikið umtal um það, sem kvisazt hafði, að skilanefnd einkasölunnar mundi hafa í hyggju að endurkrefja þær 2 kr., sem greiddar voru út á síldartunnuna síðastl. sumar.

Milli umr. hefir sjútvn. haft tal af öðrum skilanefndarmanninum, hr. Svafari (Guðmundssyni. Var hann að því spurður, hvernig á því stæði, að reikningarnir voru gefnir út í þessu formi. Gaf hann það svar, að þá bæri ekki að skoða sem fullnaðarreikninga, heldur hefðu þeir verið gerðir til þess að viðskiptamenn Síldareinkasölunnar gætu kynnt sér það, hvað þeim væri talið til skuldar. Ég verð nú fyrir mitt leyti að segja, að mér finnst þetta svar alls eigi fullnægjandi.

Þá var hann spurður um hitt, hvort það væri tilætlun einkasölunnar, að krefja um endurgreiðslu á heim 2 kr., sem borgaðar voru út. Svar hans við þeirri spurningu, sem var bókuð, var á þá leið, að um það hefði enn engin ákvörðun verið tekin. Hinsvegar kom það fram í viðtalinu við skilanefndarmanninn, að lánardrottnar í Kaupmannahöfn álitu, að Síldareinkasalan ætti kröfu á þá, er þar hefðu lagt inn síðastl. sumar og fengið eitthvað af því greitt, eða m. ö. o., að þeir yrðu að endurgreiða þessar 2 kr. Á honum sjálfum mátti skilja það, að hann teldi Síldareinkasöluna hafa verið „commissions forretningu“, eins og hann mun hafa orðað það, og væri þá eðlilegt, að krafa kæmi fram um endurgreiðslu, þegar stofnunin gæti ekki fullnægt þeim kröfum, er á henni hvíla. Hann fékk það svar tíð þessu, að við teldum viðhorf Síldareinkasölunnar ekki sambærilegt við venjulega umboðsstarfsemi.

Ég vildi láta þessa getið, því þó að sjútvn. geri engar till. í sambandi við frv., þá er þó engan veginn úr því skorið enn, hvort gerðar kunna að verða kröfur um endurgreiðslu eða ekki.

Ég vil fyrir mitt leyti benda á það, sem fulltrúinn líka kannaðist við, að ég tel ekki geta komið til mála, að ríkisstj. fari að krefja endurgreiðslu á þeim peningum, sem borgaðir voru fyrir síldina. Mér finnst þeirra hlutur, sem við hana skiptu, nógu rýr, þótt ekki sé við það bætt, að þeir verði að eiga í malaferlum svo árum skiptir máske með ærnum kostnaði út af þessu. — ég býst við, að sjútvn., eða a. m. k. meiri hl. hennar líti á þetta eins og ég. Ef hæstv. stj. treystir sér ekki til að láta uppi ákveðið álit um þetta, þá verður að koma fram með till. til þál., svo að vilji þingsins geti skorið úr um þetta atriði.

Þá er það eitt enn í sambandi við líkvidation Síldareinkasölunnar, sem ég vil minnast á. Mér þykir það sem sé mjög athugavert, sem ég hefi fyrir satt, að muni vera gert, að skilanefnd láti afvatna gamla síld og „léttsalta“ hana síðan til sölu í Þýzkalandi. Ég býst við, að hæstv. stj. geti upplýst þetta betur. En mér þykir þetta varhugavert. Íslenzka síldin er að vinna sér fótfestu á þýzkum markaði. En Þjóðverjar vilja aðeins kaupa léttsaltaða síld. Harðsaltaða síld kaupa þeir ekki, þeim geðjast ekki að henni. En sá háttur var upptekinn af Síldareinkasölunni að léttsalta síld fyrir þýzkan markað. — Voru þær tilraunir á góðum vegi með að vinna markað fyrir síld á Þýzkalandi. Ég hafði í vetur tækifæri til að kynna mér álit þeirra, sem síldarverzlun hafa með höndum í Þýzkalandi, á þessari léttsöltuðu íslenzku síld. þeim bar saman um það, eins og líka kemur fram í skýrslum, sem ég hefi í höndum frá tveimur stórum innflutningsfirmum í Þýzkalandi, að talsverðir gallar hefðu verið á meðferð hennar og frágangurinn ekki sem fullkomnastur. Aftur eru tvö atr., sem til greina koma og mikla þýðingu hafa að því er sölu þessarar voru snertir, og það er, að léttsaltaða síldin íslenzka er ódýrari en sú skozka og samkv. vísindalegum rannsóknum er hún auðugri að næringarefnum heldur en síldin frá keppinautum okkar: Þessi atr. eru þýðingarmikil og þau í sambandi við rétta meðferð á vörunni eru mjög líkleg til þess að vinna íslenzkri síld mikinn markað í framtíðinni. En sé sá háttur upp tekinn þegar á fyrsta stigi þessara sölutilrauna að taka t. d. harðsaltaða síld og afvatna hana og senda hana svo sem léttsaltaða á þýzkan markað, þó jafnvel að innflytjendurnir viti, að um allt aðra vöru er að ræða heldur en hæf er fyrir þeirra markað, þá er hætt við að neytendurnir úti um landið, sem fá þessa voru, vitanlega undir íslenzku nafni, fái andúð á íslenzkri síld yfirleitt. Þetta getur stórspillt fyrir sölu á íslenzkri síld í framtíðinni. Ég vil því benda hæstv. atvmrh. á, að það mun sennilega alls ekki borga sig, þó Síldareinkasalan gæti látið sér verða eitthvað úr vöruleifum sínum, ef um leið er stofnað í beina hættu framtíðarmöguleikum til sölu íslenzkrar síldar í Þýzkalandi. En mér er ekki ugglaust um, að til þess sé efnt með aðgerðum skilanefndarinnar, vitaskuld með þeim málsbótum, að hún er að reyna að gera eitthvert verð úr síldarbirgðum einkasölunnar.

Það var minnzt á það við 2. umr. þessa máls af hv. þm. Borgf., hvort ekki væri full ástæða til þess að taka til rannsóknar stj. Síldareinkasölunnar á undanförnum árum og þ. a. m. þau atr., sem stj. að réttu lagi ber ábyrgð á. Ég man ekki til, að ég hafi heyrt nein skýr svör um þetta efni frá hæstv. atvmrh. En eins og hv. þm. Borgf. benti á, hafa átt sér stað þarna svo stórkostlegar misfellur, svo mikil misbeiting og hlutdrægni fyrir utan öll glappaskotin, að það stappar nærri siðleysi í opinberum efnum, ef slíkt er látið algerlega átölulaust. Ég skal t. d. nefna það, þegar einn af forstjórum einkasölunnar, Einar Olgeirsson, greiddi Þórði Flygenring 14 þús. kr., þó hann væri búinn að fá 7 kr. út á hverja síldartunnu eins og aðrir, og ætti því enga kröfu á einkasöluna fremur en aðrir, sem hún seldi fyrir. Þetta fór fram með svo mikilli leynd, að sjómennirnir, sem hjá þessum manni störfuðu fyrir norðan, vissu ekkert um það. Þegar þetta upplýstist löngu síðar, hafði einkasalan ekki önnur ráð en ganga að síldarinneign skips, sem þessi maður var framkvæmdarstjóri fyrir og láta það þannig borga brúsann. Þetta er eitt dæmi af mörgum um það, hvernig stj. einkasölunnar hefir hagað sér öðruvísi en stj. slíkra fyrirtækja má gera. Sjómennirnir, sem í þessu tilfelli urðu að blæða fyrir það, að hlutdrægni hafði verið beitt, eiga eiginlega kröfu á stj. einkasölunnar um bætur.

Ég vildi óska, að hæstv. atvmrh. vildi svara þeim atr., sem hér um ræðir. fyrsta lagi, hvort hann sem atvmrh. vill leggja það til, að skilanefnd Síldareinkasölunnar hefji herferð á hendur viðskiptamönnum einkasölunnar, til þess að reyna að ná inn þeim tveimur og í sumum tilfellum þremur krónum, sem búið var að greiða fyrir hverja síldartunnu á síðastl. sumri. Í öðru lagi, hvort það er með samþykki stj., að verið er að senda til útlanda voru, sem í raun og veru er ekki markaðshæf og því getur orðið til þess að spilla markaðinum í framtíðinni. Og í þriðja lagi, hvort hæstv. atvmrh. virðist, þrátt fyrir öll þau skakkaföll og öll þau dæmi um beina hlutdrægni, sem bent hefir verið á, að stj. Síldareinkasölunnar hafi farið þannig fram, að engin ástæða sé til þess fyrir ríkisstj. að skipta sér neitt af því.