19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jóhann Jósefsson:

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þá yfirlýsingu, að hann ætlar að halda fast við það, að ekki sé stigið það spor að heimta endurgreiðslu á því, sem Síldareinkasalan greiddi upp í andvirði síldarinnar á síðastl. sumri.

Aftur á móti er ég ekki vel ánægður með svar hans viðvíkjandi þeim útflutningi á afvatnaðri síld, sem mun hafa átt sér stað. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að athuga það, að það er með hagsmuni síldarútvegsins fyrir augum, að ég bendi á þessa meðferð á síldinni, og með það fyrir augum, að fyrir tveimur árum var íslenzk síld óþekkt á þýzkum markaði, en þegar Íslendingar tóku upp þá aðferð að léttsalta síldina eftir skozkri fyrirmynd, þá kom í ljós, að hún var mjög líkleg til þess að vinna sér álit á þýzkum markaði.

Mér kemur ekkert á óvart, þó hæstv. forsrh. viti ekki af þessum útflutningi persónulega og þó hann segist ekki hafa vit á þessu. En skilanefndin mun ekki heldur hafa mikið vit eða kunnugleika á þessum málum. Þess vegna er sjálfsagt að athuga það, að ekki sé hér stigið neitt spor, sem spillt getur því goða áliti, sem íslenzk síld er að vinna sér á þýzkum markaði. Það mun alls ekki borga sig, þó eitthvað meira hefðist upp úr síldarbirgðum einkasölunnar með því móti. Hæstv. ráðh. lofaði nú að kynna sér þetta mál og vona ég, að það verði til þess, að allrar varúðar verði gætt. Ég vil taka það fram, að ég vissi ekkert um þennan útflutning, þegar skilanefndarmaðurinn sat fund meðsjútvn. En þó ég hefði vitað um hann þá og rætt um hann þar, þá hefði ég einnig gert það hér í hv. d., því ég lít svo á, að hæstv. atvmrh. beri í raun og veru ábyrgð á því, hvernig allt þetta fer fram og þess vegna sé hér hinn rétti vettvangur til þess að benda á þau mistök, sem kunna að eiga sér stað.

Að lokum vil ég taka undir það, sem hv. þm. Borgf. sagði, að það á ekki að vera komið undir skilanefndinni, hvort rannsókn á að hefja út af gjaldþroti einkasölunnar, heldur eigi hin almennu lagafyrirmæli um þetta efni að gilda, og það mun enginn vafi leika á því, hvað hæstv. stj. ber að gera í þessu efni, ef eftir þeim er farið.