25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

14. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það er bara í sambandi við það, að hv. 3. landsk. taldi mundu stafa tilfinnanlegan kostnað af ákvæðum frv. eins og þau nú eru. Í 5. gr. er gert ráð fyrir, að það sé skylt, að dýralæknir skoði hrossin, þegar þau eru flutt út. Gæti það varla skoðun kallazt, nema hendur væri hafðar á hverju hrossi. Nú, og úr því búið er að beizla hrossið á annað borð, þá held ég, að það verði ekki mikill kostnaður við að bregða á það máli. (JónJ: Þau verða nú varla beizluð). Hv. dm. þurfa því ekki að vera hræddir við þann kostnað, sem af þessum ákvæðum frv. leiðir, né að það gætu stafað nein óþægindi af þeim.