14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

14. mál, útflutningur hrossa

Pétur Ottesen:

Það er aðeins stutt fyrirspurn til hæstv. atvmrh. Eins og hv. frsm. tók fram, þá hafði landbn. það eitt að athuga við frv. eins og það er nú, að lita mætti svo á eftir orðalagi 1. gr., að stj. teldi sig svo bundna af orðalagi hennar, að hún treysti sér ekki til að veita undanþágu um útflutning á t. d. 2 hrossum, nema um eitt og eitt hross væri að ræða, en teldi sér hinsvegar ekki fært að veita slíka undanþágu, ef um dálítinn hóp hrossa væri að ræða. Það gæti hugsazt, að hægt væri að selja dálítið af tvævetrum hrossum til útlanda, t. d. til Svíþjóðar, ef þau eru stór og falleg. Ég teldi því varasamt að taka alveg fyrir hann möguleika, ekki sízt á jafnerfiðum tímum og nú eru og þar sem engin hætta væri á, að þetta spilli fyrir markaðinum að öðru leyti. — ég vil því spyrja hæstv. atvmrh. um það, hvort hann teldi stj. fært að veita slíka undanþágu, þó um nokkurn hóp hrossa sé að ræða. Ef hæstv. ráðh. treystir sér til að svara þeirri spurningu játandi, þá er síður ástæða til að breyta frv., enda gæti þá svo farið, ef því verður breytt, að það dagi uppi á þessu þingi.