09.04.1932
Neðri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég ætla ekki að rekja þetta skattamál í sundur, en ég tek nýjustu útgáfuna af Encyclopædia Britannica jafnvel fram yfir Alþt. um það, sem skattamálum Englands við kemur. (HV: ég vil benda hv. ráðh. á að lesa um Ísland í Encyclopædia Britannica og sjá, hve rétt er greint þar frá). — EA: Já, þar er mörg vitleysan um Ísland). Þar fyrir býst ég ekki við, að þar sé vitlaust greint frá skattamálum Englendinga. Um slíkt þarf ekki að deila.

Viðvíkjandi þjóðstjórninni í Englandi, bar hv. 3. þm. Reykv. það á Mac Donald og Snowden, að þeir hefðu verið ófáanlegir til að lækka vexti af stríðsskuldunum. Ég tel rétt að geta þess, hvað þarna bar á milli. Nokkur hluti jafnaðarmanna vildi lögþvinga eigendur skuldabréfa til þess að taka ekki nema 4% vexti, en Mac Donald og Snowden vildu gefa öllum kost á að kaupa ný 4% bréf fyrir önnur, sem höfðu gefið 5%, og þeir, sem á endanum mynduðu þjóðstjórnina, sögðu, að slík verðbréfaeign væri sambærileg við sparisjóðsinnstæðu og að ótækt væri að taka ráðstöfunarréttinn á því fé af fólkinu. Um annað var ekki að ræða. Og flestir treysta ensku stjórninni til þess að geta komið þessu í lag með frjálsu móti, og sá kostur verður vitanlega tekinn.

Um verðtoll má segja það, að höfuðatriðið um hann, eins og marga aðra tolla, er, að það gengur auðveldlega að innheimta hann. Og einn er sá kostur við þann tekju- og eignarskatt, sem ekki er alltof hár, að sæmilegt er að innheimta hann. En stórkostleg hækkun tekju- og eignarskatts ofan á útsvör veldur óviðráðanlegum örðugleikum í innheimtu. Því er það, að hinir óbeinu skattar munu lengi haldast og hinir beinu skattar hljóta ávallt að hafa sín takmörk. Ég veit, að jafnaðarmenn vilja afgreiða fjárl., ef þeir fá að ráða stefnu þingsins, en þeir mega líka vita það, að sú krafa er fjarstæða. Meðan þeir eru ekki nema fjórir í þinginu, er ómögulegt, að þeir fái einir að ráða öllu. Og það er nokkuð sjálfbyrgingslegt að taka þá afstöðu, að annaðhvort verði þeir einir að ráða öllu eða að allt megi fara til fj . . . . fyrir þeim. Ég vil ráðleggja þeim, og tel heppilegra, að þeir sýni meiri samningalipurð í þessum efnum.

1) hér vantar endinn á ræðunni hjá þingskrifaranum. H. V.