29.03.1932
Efri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Jakob Möller [óyfirl.]:

Þessar langlokur hæstv. dómsmrh. hafa náttúrlega ekki hina minnstu þýðingu. Það þýðir ekkert fyrir hann að vera að veifa með því, að ég vilji ekki fá byggingu fyrir háskólann. þetta frv. miðar ekki að neinum undirbúningi undir hana, því þar er allt út í loftið. Stj. getur gert þennan undirbúning, sem hér er talað um, og háskólaráðið getur gert hann. Til þess þarf engin lög. Hún fær enga heimild til útgjalda í frv. sú eina heimild, sem stj. fær með frv., og hana fær hún alveg óskoraða, er að láta byggja heimavistahús fyrir kennaraefni. Skyldi það ekki vera aðalefni frv. að fá þessa heimild? Hún er ekki bundin neinu skilyrði, ekki einu sinni því, að fé sé veitt til þess í fjárl. Stj. ætlar ekki einu sinni hér að fara út fyrir valdsvið sitt, eins og þegar hún var að leggja fé í Laugarvatnsskólann og Reykjahælið, sem hún byggði í heimildarleysi. Nú á að gefa henni lagalega heimild til að byggja heimavistir fyrir kennaraefni — í lögum um byggingu fyrir Háskóla Íslands. þetta er nú allur sá áhugi, sem ég finn á byggingu fyrir háskólann hjá hæstv. dómsmrh. Háskólamálið kemst ekkert lengra áleiðis fyrir þann áhuga.