29.03.1932
Efri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 1. landsk. hefir í Stúdentablaðinu gert grein fyrir áhuga sínum á þessu máli, og stendur í því framar en flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Reykv., með því að hv. 1. landsk. hefir sagt í grein þessari, að hann hafi einu sinni á sínum yngri árum, ég held úti í Berlín, gert uppkast að uppdrætti af háskólabyggingu, en hún hefði síðan týnzt, það hefir nú ekkert meira heyrzt af þessari teikningu, en ég viðurkenni, að þessi æskudraumur hv. 1. landsk. er honum til sóma, og ég hefði viljað óska, að hann hefði haldið honum betur til streitu og að hann hefði geymt betur teikninguna, svo að hún hefði nú getað komið að notum við undirbúning þessa máls. Það hefði verið betra fyrir þennan velviljaða sjálfboðaliða.

Hv. 1. þm. Reykv. hefir sagt, að það væri ekkert fengið með samþykkt þessa frv. En það er þó fyrst og fremst það, að samþykkt þess leggur grundvöllinn að því, að hægt sé að gera samning við Reykjavíkurbæ um lóð undir Háskóla Íslands. Þann samning er hægt að gera strax, þegar lögin eru fengin, svo framarlega sem Reykjavík vill ganga að þeim skilyrðum, sem þau setja. Þess vegna er það mikið unnið fyrir málið að setja þessi lög, að þegar búið er að gera þann samning, þá geta stúdentarnir farið að byrja á sinni byggingu, eða parti af henni, ef byggð verða fleiri smáhús. Ennfremur er lagður grundvöllur að því í 2. gr. að tryggja háskólanum vatn úr hitaveitu bæjarins, með orðalagi, sem verður til sparnaðar fyrir landið. Það mætti segja, ef þetta væri ekki gert, að þá yrði vatninu ráðstafað annað, og að þess vegna kynnu bæði stúdentagarðurinn og háskólinn að hafa tapað þessum hlunnindum.

Vegna áhuga hv. 1. landsk. og fyrir stuðning hans við þetta mál á fyrri þingum, þá vil ég segja það, að mér hefir aldrei dottið í hug að skilja frv. öðruvísi en eftir orðanna hljóðan; þar er sagt, að innan tiltekins tíma sé landsstj. heimilt að láta byrja á byggingu fyrir Háskóla Íslands, og það er gert ráð fyrir að þessi bygging hafi húsrúm fyrir kennslu í uppeldisvísindum í höfuðbyggingunni, og að tryggja megi loð fyrir heimavistahús handa kennaraefnum. Það kemur nú sjálfsagt ekki fyrr en eftir að farið verður að kenna uppeldisvísindi við háskólann. Þetta er svo glöggt, að það var ekki af því, að hv. 1. þm. Reykv. ekki skildi það, að hann lézt ekki skilja það, heldur vildi hann ekki skilja það, vegna þess að hann er á móti málinu.