29.03.1932
Efri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Jón Þorláksson:

Þó að mér hafi þótt formáli hæstv. ráðh. nokkuð langur, áður en hann komst að því að svara fyrirspurn minni, þá skal ég ekki fara út í hann, en slæ því föstu, að svar hans hafi verið á þá leið, að ákvæði 3. gr. um heimild stj. til að láta reisa heimavist fyrir kennaraefni þýði ekki annað eða meira en það, að í þeim skipulagsuppdrætti, sem gerður verður viðvíkjandi tilhögun bygginga á lóð háskólans, sé heimilt að ætla lóð undir heimavist fyrir kennaraefni. Hæstv. ráðh. sagði, að það feldist ekki meira í gr. í þessu efni. Hann telur ekki, að í henni felist heimild til að reisa sjálft húsið án þess að fé sé til þess veitt.

Ég get verið ánægður með svarið, en finnst, að það, sem hæstv. ráðh. hefir látið í ljós, sé ekki nægjanlega skýrt orðað í gr., og ég sé ekki ástæðu til, að ekki komi ljóst fram í gr. það, sem raunverulega er ætlazt til, að hún þýði. þessu þyrfti því að þreyta, og mætti gera það við 3. umr., ef frv. kemst þangað, sem ég vil vona.