26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Halldór Stefánsson:

Ég hefi skrifað undir nál. menntmn. með fyrirvara, en sá fyrirvari gildir það, að ég vil ekki ganga að frv. óbreyttu eins og n. Samkv. þessu hefi ég leyft mér að bera fram brtt. við frv. á þskj. 424. Nú er enginn ágreiningur af minni hálfu, að því er efni frv. snertir, nema um 2 atriði. Annað er það, að ég álít hvorki rétt né nauðsynlegt að binda það við vissan tíma, að hafizt verði handa um háskólabyggingu. Hitt er það, að ég álit ekki rétt og ekki heldur nægjanleg gögn fyrir hendi til þess að hægt sé að binda byggingarkostnaðinn við ákveðna upphæð, eins og gert er í frv. Að öðru leyti hefi ég, eins og aðrir nm., fallizt á efni frv., eins og brtt. mínar á þskj. 424 sýna, því með þeim er sett fram efni frv. um annað en þessi 2 atriði. En við þetta raskast auðvitað nokkuð framsetning efnisins. Ég set fram fyrst höfuðatriði málsins, það atriðið, sem veldur því, að ég get fallizt á frv., að sá undirbúningur verði þegar hafinn, að leita samkomulags við Rvíkurbæ um lóð undir bygginguna o. fl. Ef þetta atriði hefði ekki verið í frv., hefði mér ekki þótt ástæða til að fylgja því. En það er eingöngu fyrir þetta atriði, að ég vil fylgja frv., því ég álít það gagnlegt að leita samkomulags við Rvíkurbæ um að fá land undir háskólabyggingu og þær fylgibyggingar, sem hugsað er, að henni fylgi.

Ég hefi nú gert grein fyrir minni afstöðu og brtt., og geri ekki ráð fyrir að ræða nánar um málið. Því er lýst nokkurn veginn í mínum till., hvernig ég hefi hugsað mér afgreiðslu málsins.