26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Magnús Guðmundsson:

Það má segja um þetta frv., að það er ekki nýr gestur hér á Alþingi, því þetta er nú a. m. k. þriðja þingið, sem það kemur fyrir. Það er því í umr. búið að taka flest það fram, sem ætti að þurfa í sambandi við frv. En úr því það er nú enn á ferðinni, verður ekki hjá því komizt að fara um það nokkrum orðum, til þess að benda á, hvernig þessi smíði er.

Um 1. gr. frv. er það að segja, að hún er eitt hið þýðingarlausasta, sem ég hefi séð í frumvarpsformi. Að segja, að stj. hafi heimild til að láta reisa byggingu, ef fé sé til þess veitt í fjárl., er vitanlega með öllu meiningarlaust, því að stj. er beint skylt að láta gera það, sem fé er veitt til í fjárl. Ég veit því ekkert, hvað getur verið meint með þessari gr., nema ef hún á að vera einhverskonar hengingaról á framtíðina í þessu máli, þó áhrifalaus sé.

Ákvæðið um það, hvað þessi væntanlega bygging á að kosta, er vægast sagt sett alveg út í loftið, og það má teljast undarlegt, að komið skuli fram með bindandi ákvæði um það, meðan hvorki er vitað, hvað byggingin muni kosta, né hitt, hvenær fé verður fyrir hendi til byggingarinnar. Ég man eftir því, að hér um árið flutti hæstv. dómsmrh. klukkutímaræður móti byggingartill. frá þáv. stj. og taldi þær óhæfu, vegna þess að vantaði áætlanir, og þó var það mál ólíkt betur rannsakað en þetta er nú.

Annars verð ég að segja það, að ég ætla, að kostnaður við væntanlega háskólabyggingu muni verða miklu hærri en hér er ráð fyrir gert; þegar ein síldarbræðslustöð kostar ekki minna en nærri 2 millj. kr., þá mun ekki vera hægt að byggja háskóla fyrir 600 þús. kr. Ég hygg, að ekki sé líklegt, að hægt sé að byggja nokkurn hluta af húsinu og taka til afnota, svo sem hátíðasal, áður en húsið er fullgert, og skil ég ekki, hvernig hæstv. dómsmrh. hugsar sér það.

Þá er í 2. gr. frv. talai5 um samkomulag við bæjarstjórn Rvíkur. Sannast að segja hélt ég, að það samkomulag væri þegar fengið. Ég tók svo eftir, að hæstv. dómsmrh. lýsti yfir því á þinginu í fyrra, að svo væri, og verð ég því að spyrja hæstv. ráðh., hvort svo sé ekki í raun og veru.

Í brtt. hv. 1. þm. N.-M. er tekið fram allt, sem máli skiptir. Það er ekki nema gott og þarft að útvega byggingunni lóð, hví það kemur öllum saman um, að nauðsynlegt sé að byggja háskólann sem fyrst, en fyrst þegar búið er að semja um lóðina við bæjarstj. og afla nákvæmari upplýsinga um kostnaðinn, er hægt að leggja út í bygginguna, ef fjárhagsástæður leyfa. Hitt er ekkert annað en blekking við Alþingi, þegar sagt er, að hægt sé að byggja fyrir þetta eða hitt, án þess að nokkur rannsókn liggi til grundvallar, og svo reynist verkið miklu dýrara þegar til kemur.

Af þeim ástæðum, sem ég hefi nú tekið fram, mun ég greiða atkv. með brtt. hv. 1. þm. N.-M., því í þeim felst það, sem nú er hægt að gera í málinu. Það er alveg þýðingarlaust að miða við árabilið 1934–40, því allt er undir því komið, hvort og hvenær fé verður veitt til byggingarinnar, hve lengi það dregst að hún komist upp, en ákvæði 1. gr. eru með öllu óþörf og gætu miklu fremur orðið til þess að seinka málinu heldur en hitt.