26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Skagf. hélt hér nokkra ræðu og mælti heldur á móti þessu frv. Ég hygg nú, að við nánari athugun komist hann að raun um það, að svo framarlega sem Íslendingar hyggja sig þess umkomna í raun og veru að taka stjórn sinna mála að öllu leyti í sínar hendur eftir 1940, eins og allir flokkar hafa látið í ljós, að við ætluðum að gera, þá sé ósamræmi í því að álíta, að við getum ekki komið upp byggingu yfir háskólann fyrir þann tíma. Ef við ætlum okkur að verða algerlega sjálfstæð þjóð og trúum því, að við getum það, eins og ég veit, að hv. 2. þm. Skagf. mun gera, þá verðum við líka að trúa því, að okkur takist að reisa hús yfir æðstu menntastofnun þjóðarinnar á næstu átta árum, þó fátæklegt verði í fyrstu.

Hv. þm. veit vel, að það hafa oft verið samþykktar áætlanir um það, hvað gert skyldi í framtíðinni, á svipaðan hátt og hér er um að ræða. Og ég man ekki betur en að hann væri sjálfur flm. að einni slíkri ákvörðun, sem samþ. var af öllum flokkum árið 1928; var þar bundið við ákveðinn tíma mjög kostnaðarsamt verk, sem engin vissa var um, hvað mundi

kosta. Ég ætla ekki að fara að krítisera það, sem hv. þm. sagði þá. En ég vil benda á það, að það mundi kosta okkur nú um 120 þús. kr. að hafa sendiherra í London einni, eins og þann, sem er þar fyrir Íslendinga og Dani. Það er ein af afleiðingum þessarar ráðagerðar, að hafa sendimann í London, þótt ekki sé víst, að hann verði eins stór og þeir sem stórþjóðirnar hafa þar. En þessu var heitið árið 1928, og meira til. Það var treyst á gengi þjóðarinnar og vaxandi mátt og þá köllun hennar að geta lifað sjálfstæðu lífi, stjórnmálalega og menningarlega. Það, sem hér er byggt á, eru bæði þeir erfiðleikar, sem á því eru að leysa málið í skjótri svipan og hinsvegar sú innri nauðsyn, sem á því er að leysa það fyrir þennan tiltekna tíma.

Hv. 2. þm. Skagf. sagði ekkert um það, hvort hann áliti, að gera ætti meira en frv. fer fram á eða minna. Hann taldi þetta bara vera of óákveðið. En þetta er misskilningur hjá hv. þm. Undirbúningur þessa máls er ákaflega vandasamur. Áður en hann er hafinn, verður að fast yfirlýsing þingsins um það, hvað miklu fé það vilji verja til byggingarinnar. Það gerir allan undirbúning ákaflega miklu léttari, ef byggja má á þeim grundvelli, að byggingin eigi að kosta 600 þús. kr. Það er ekki útilokað, að byrja megi heiðarlega með minni upphæð en hér er gert ráð fyrir, t.d. 1/2 millj. Það mátti t.d. láta eina af deildum háskólans vera hérna áfram og byggja aðeins yfir hinar þrjár til að byrja með. Sumum hefir jafnvel dottið í hug, að fá mætti kennslustofu í stúdentagarðinum. Það skipulag, sem hugsað er að fylgja, að láta háskólann smávaxa, gerir þetta auðvelt. En talan, sem tiltekin er í frv., er samt ekki sett af handahófi. Það er í stórum dráttum miðaða við óskir háskólans um húsrúm og það, að þessi fyrsta bygging hans geti orðið full sómasamleg þótt ekki verði hún stórkostleg.

Hv. þm. minntist á gamalt mál, sem við deildum um fyrir 7 eða 8 árum. Það var landsspítalinn. Það voru til lög um bygginguna frá 1919 og lánsheimild, að því er mig minnir. Svo þegar farið var að taka nánar á málinu — hv. 2. þm. Skagf. var þá í stjórn —, þá fór ég fram á, að svipuð takmörk yrðu sett um kostnaðinn og hér er farið fram á. Ég bar fram þál. um, að landsspítalinn yrði ekki hafður stærri en Landsbankinn, sem þá var nýbyggður. Þetta hafði þau áhrif, að n. sem vann að málinu, hafði nokkurnveginn ákveðna fjárhæð að halda sér að og gerði það líka. Þegar n. vildi fara lítið eitt út fyrir áætlunina og stækka spítalann, þá bar hún það undir stj., og hv. 1. landsk., sem þá var við stjórn, gekk inn á hóflega stækkun á ráðagerðinni. Þetta er því ekki þýðingarlítið atriði, og það er óhjákvæmilegt fyrir þá, sem vinna að undirbúningi málsins að hafa frá þinginu ákveðna bendingu um það, hvað fyrsta byggingin megi kosta.

Ég veit, að hv. 2. þm. Skagf. hefir tekið eftir því, að tveir hv. þm., sem hér hafa talað frá ólíkum sjónarmiðum, hafa haldið því fram, að þessi áætlun væri siðferðislega bindandi fyrir þingið. Hún er ekki bindandi á þann hátt, að stj. geti byggt framar en þingið veitir fé til í fjárlögum. Það, sem stj. á að gera, er að fá sem tryggilegasta áætlun um, hvernig þessum 600 þús. kr. verði bezt komið fyrir. Svo er það undir þinginu komið, hvað fljótan framgang málið fær.

Hv. þm. furðaði sig á því, að ég sagði, að hafa mætti í þessari fyrstu byggingu hátíðasal. þetta stafar af því, að hann er of ókunnur málinu. Í öllum erlendum háskólum eru samkomusalir stúdenta sérstakar byggingar og mikið að þeim hlynnt, og því verður ekki neitað, að það, sem háskólann hér vantar einna tilfinnanlegast, er samkomusalur, það er ekkert viðlit fyrir 150 stúdenta að koma alla saman í einni lítilli stofu. Stúdentarnir hér eru líkt settir og sauðir hjá stórbónda, sem ekki hefir hús nema handa þriðjungi þeirra og verður því að hýsa þá til skiptis. Á slíkum útigangi er háskólinn.

Hv. 2. þm. Skagf. hefir misskilið mig, ef hann heldur, að það sé fengið samkomulag um málið við bæjarstj. Rvíkur. Það er ekki fengið, því að stj. hefir ekki heimild til að gera samninga við bæjarstj., og getur ekki gert þá nema frv. verði samþ. Hitt er rétt, að bæjarstj. hefir tekið vel í málið, og það eru líkur til þess, að bærinn gefi lóðina, ef þingið vill ganga að þessari áætlun, sem í frv. felst. En meira en líkur eru það ekki ennþá.

Við hv. 4. þm. Reykv. vil ég segja það, að ég býst við, að við séum báðir ásáttir um, að það hafi verið gæfa, að ekki er búið að byggja yfir háskólann. Ef byggt hefði verið fyrir 1930, þá hefði það áreiðanlega verið gert af of lítilli framsýni. Það var fyrst með hinni nýju ráðagerð, að tryggja háskólanum mikið landrými, að grundvöllurinn var lagður að glæsilegri framtíð hans. Og eins og hv. þm. sagði, þá er það heppilegt, að háskólinn geti vaxið eftir síbreytilegum kröfum lífsins.

Hv. 1. þm. N.-M. hefir nú skýrt það gleggra, hvað fyrir sér vaki með brtt. sínum. Hann telur það vafasamt, hvort þingið eigi að taka bindandi ákvörðun í þessu máli. Hann vill vera óbundinn. þessi skoðun er fullljós, og þar af leiðir, að það er gífurlegur afstöðumunur milli till. hans og frv. Annað er byggt á því að þoka málinu áfram. Hitt snertir einungis rannsókn málsins, en öllu er haldið óbundnu um framkvæmdir.