26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð. Ég þarf ekki að geta um það, af því að hæstv. ráðh. minntist á það, að það er nauðsynlegat, að frv. verði samþ. til þess að geta leitað samninga við Rvíkurbæ um lóðina. Háskólaráðið hefir vandlega athugað það atriði og komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir samningar fáist ekki, nema trygging sé fyrir því, að þar verði byggt. Bærinn er yfirleitt varkár, þegar hann afhendir lönd sín, eins og eðlilegt er. Þegar leigulóðir eru afhentar, þá verða leigutakar t. d. að hafa byrjað á byggingu innan ákveðins tíma; annars falla lóðirnar til bæjarins aftur. Þetta er eðlilegt, því það eru nógir um lóðirnar og bærinn getur ekki leyft, að þær séu ónotaðar. Þar sem landið á hér í hlut, býst ég ekki við, að það verði sett að skilyrði, að byggt verði innan ákveðins tíma. En hitt er réttmætt, að bærinn vilji þó fá vissu sína um, að þarna verði þó byggður háskóli, þótt þingið setji varnagla, með því að geyma sér rétt til að skammta fé til þess.

Ég er ekki alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að það hafi verið happ, að ekki er búið að byggja háskólann. Sagði ég að vísu, að svo framarlega sem það hefði verið gert óheppilega, þá sé það betra, að ekki er enn búið að því. En hefði verið hafizt handa t. d. 1917–19, þá hefði sá undirbúningur líklega leitt til sömu niðurstöðu og nú. Var þá t. d. borgarstjóri hinn sami og nú er, og er ekkert ólíklegt, að honum hefði þá dottið það sama í hug. Annars er það að deila um keisarans skegg. Að öðru leyti er ég því sammála, að ef farið er að undirbúa háskólabyggingu, þá sé það gert á jafnrúmum grundvelli og hér.

Ég er ekki viss um, að staurinn þurfi að vera einskorðaður við þessa lóð, þótt góð sé. Hefir mér dottið í hug, að jafngott sé að fá pláss innan við bæinn, t. d. sunnan í holtinu við laugarnar. Þar er heitt vatn nálægt, og eins væri þar fallegur staður fyrir háskólahverfi. Er það svo víða erlendis, að háskólahverfi eru höfð utan við borgirnar, og þykir það oft vera hin mesta prýði. Legg ég þó ekki mikið upp úr þessu. Annað er líka athugandi, sem sé það, að búast má við, að haldið verði uppi ódýrum samgöngum þarna inn eftir.

Lóðin á Melunum hefir það sér til ágætis, að þar er kyrrt og rólegt og stutt niður í miðbæinn. Álít ég ekki fjarri sanni að litast um eftir háskólastæði, þótt maður láti ekki tefja sig togstreitu um þetta.

Hv. 1. þm. N.-M. virtist mér vilja eyða því, að háskólinn væri í húsnæðiskreppu. Er raunar erfitt að segja um það, hvort þetta hafi í raun og veru staðið háskólanum fyrir þrifum. En ef athugað er, að þetta er skóli með hátt á 2. hundrað nemenda í 4 sjálfstæðum deildum og með nám, sem sótt er fastar hér en á stærri háskólum, því að hér er meira skólasnið haft en víða annarsstaðar, þá má nærri geta, að það muni standa skólanum fyrir þrifum. Nemendur verða að kúldast inni í 4 stofum, sem tvær ná ekki meðalkennslustofustærð, en tvær eru aftur helmingur af því. Í þeirri deild, sem ég kenni í, hafa ekki allir sæti, þegar flest er, en verða ýmist að standa eða sitja úti í gluggakistum. Skólabekkjum er ekki hægt að koma út úr stofunni, svo að ekki er hægt að prófa þar, og verður að fá til þess aðra stofu. Það er alkunna, að oft verður að reka kennara út úr kennarastofunni, svo að hægt sé að hafa þar tíma. þarna eru engin starfsskilyrði fyrir stúdenta, ekkert bókasafn eða vinnustofur, og er það meira en lítið bagalegt, því að það er nauðsynlegt fyrir alla skóla að hafa vinnustofur með bókasöfnum. Að ég ekki tali um það, að þarna vantar allt, sem skemmtun og þægindi er að. Einn samkomusalur er til, en það er forstofan niðri, og vita allir, hvernig hún er. Þegar súgur er á vetrum, þekkja allir, hvernig hurðin niðri reynist, samantimbruð og alltaf brotin. Þar að auki hefir skólinn ekki þessa forstofu fyrir sig, því að Alþingi hefir hana líka. Er ekki hægt að hugsa sér bágbornara húsnæði fyrir háskóla, úr því að hann er ekki haldinn úti á gotu eða menn látnir sitja á gólfinu, eins og stundum var á miðöldum. Er það furðulegt, hvað hægt er að yfirvinna þessa örðugleika, þótt ég efist ekki um, að þetta hefir háð háskólanum og sett kyrking í hann.

Það er galli frv. frá mínu sjónarmiði, að það herðir ekki meira á framkvæmdum í þessu. Efast ég ekki um, að við eigum framtíð fyrir okkur, þótt nú sé kreppa. Hlýtur að reka að því, að komið verði upp húsi fyrir háskólann.

Þá er kostnaðurinn. Menn geta sagt, að úr því að síldarbræðsluverksmiðja kosti svo og svo mikið, þá hljóti svo virðuleg bygging sem háskóli að verða dyr. En háskólabygging þarf ekki að verða óheyrilega kostnaðarsöm, ef hún er ekki skreytt úr hófi fram, og ekki hlutfallslega dýrari en önnur hús. Hefir verið samstarf um það milli deilda háskólans að áætla kostnað, og gerðu þær misjafnar kröfur, en þó mjög í hófi. Dýrust yrði læknadeild, því að kennsla í læknisfræði er allkostnaðarsöm. En mikill hluti kennslunnar fer þó ekki fram í háskólanum, heldur í landsspítalanum. Þó mun hún þurfa meira húsnæði en hinar. Gæti byggingin að vísu orðið plássfrek, ef gert er ráð fyrir stórum bókasöfnum o. þ. h., en slíkt má sníða við vöxt fyrst í stað. Mætti hafa bókasöfn fyrst í stað í herbergjum, sem síðar gætu svo orðið kennslustofur, þegar bókasöfnin yrðu flutt í stærri stofur eða hús. Ef þessari áætlun yrði fylgt, held ég, að hægt væri að byggja viðunanlegan háskóla fyrir svo sem 1/2 millj. kr. með sæmilegum kennslustofum, vinnustofum, bókaherbergjum og samkomusal. Stoðar ekki að vitna í það, að stj. hafi notað meira fé en ætlazt var til, svo að ekki sé hægt að ráðast í þetta. Finnst mér ekki þörf á að marka þetta skýrar en gert hefir verið, má það bíð þangað til að framkvæmdum kemur. Fyrir mér er það aðalatriðið að fá yfirlýstan þingvilja um það að háskólann skuli reisa. (MG: Það stendur ekki í frv.). Ég lít svo á. Annars ætti Alþingi að fella frv. Þingið á ekki að samþ. slík heimildarl., ef það þýðir, að ekki eigi að byggja skólann.

Það þarf m. a. að byrja á þessu vegna stúdentagarðsins. Er það óhæfilegt, þegar stúdentar eru búnir að safna svo miklu fé sem orðið er, að ekki skuli þá vera hægt að reisa stúdentagarðinn. Stúdentar verða að kúldast í vondum húsakynnum hingað og þangað um bæinn, af því að enginn veit, hvar húsið á að standa.