26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Hannes Jónsson:

Það er aðdáanlegt, hvað hæstv. dómsmrh, og hv. 4. þm. Reykv. leggja mikla alúð við að vefja þetta ómerkilega frv. með dæmalausu málskrúði sínu. Þeir nudda sér hvor upp við annan og keppast við um að hafa sem lengstar ræður, eins og ekkert sé hægt að gera í þessu máli nema frv. verði samþ. Á meðan allt svífur í lausu lofti annars, á þessi 1. gr. frv. að vera það akkeri, sem háskólanum skal leggja við. Það er ekki heldur lítið, sem segir í þessari 1. gr. Það á að byggja háskólann, ef ríkisstj. og Alþingi á árunum 1934–1940 lízt ráðlegt að fara eftir því, sem Alþingi 1932 hafði talið æskilegt. Sé ég ekki, að við séum nokkru nær um framgang málsins, þótt þetta frv. næði samþykki. Er svo sem lögð alúð við að sýna, að ekki sé verið að skuldbinda ríkið með þessu. En ef þetta frv. á að vera nokkur stuðningur fyrir háskólann, þá verður að vera skýrt loforð um fjárframlag þessi árin. Vil ég því spyrja þessa hæstv. þjóðarfulltrúa, hvernig þeir ætlast til, að það geti orðið, þegar þeir eru búnir að lýsa því yfir, að ástandið sé þannig, að ekki sé hægt að búast við því, að hægt sé að leggja fram nokkurt fé fyrst um sinn. Hæstv. dómsmrh. lýsti því, að þegar málið kom fyrst fram, hefðu ástæður ríkissjóðs verið þannig, að líklegt hefði mátt telja, að ríkið gæti lagt fram umrædda upphæð á þessu árabili, en nú væri ástandið svo, að ekki væri hægt að búast við slíku fyrstu árin. Því þá að samþ. þetta frv., þegar menn sjá fram á, að þær vonir um framkvæmdir, sem verið er að gefa undir rós — verða að engu vegna fjárskorts ríkissjóðs? Nú er verið að berjast við afgreiðslu fjárl.frv. fyrir 1933. Er fyrirsjáanlegt, að þar verður ekki feitan gölt að flá, jafnvel þótt framlengd verði l. um verðtoll og gengisviðauka, sem enn er óvist um. Og öllum mun það ljóst, að útkoman frá yfirstandandi ári getur varla orðið betri en svo, að það, sem var í sjóði við ársbyrjun, hrökkvi til að jafna greiðsluhallann á ársrekstri þjóðarbúsins. Vér stöndum því með tvær hendur tómar í ársbyrjun 1934. Það verður því ekki hjá því komizt að taka milljóna skyndilán til þess að standast fyrstu greiðslur ársins, sem alltaf eru talsvert miklar og falla til greiðslu áður en tekjurnar fara að greiðast í ríkissjóðinn. Þannig lítur þá út fyrir, að fyrsta árið byrji, sem gert er ráð fyrir, að farið verði að leggja stórfé í háskólabyggingu.

Annars var margt furðulegt af því, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv., t. d., að ómögulegt væri að sníða háskólanum neinn stakk. Hann er óútreiknanleg stærð, sem á að gleypa stofnanir eins og Landsbókasafnið og Landsspítalann. Hann nefndi ekki gamalmennahælið og vitlausraspítalann, sem sjálfsagt gæti líka komið til greina. E. t. v. á Rvík öll að hverfa inn í blámóðu háskóladýrðarinnar, en þá verður kostnaðurinn orðinn meiri en 600 þús. kr.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að með brtt. hv. 1. þm. N.-M. væri ekkert sagt, en í þessari brtt. er allt sagt, sem nokkru máli skiptir í frv. sjálfu. Aðeins er sleppt þeim orðaleik, að þetta megi gera á hinu tiltekna árabili, ef þinginu virðist það ráðlegt á hverjum tíma.

Nenni ég svo ekki að elta ólar við allar þær fjárstæður, sem fram hafa komið í sambandi við þetta mál. Vil ég aðeins taka það fram, í sambandi við þau orð hv. 4. þm. Reykv., að ekki væri hægt að halda áfram undirbúningi málsins fyrr en yfirlýstur þingvilji lægi fyrir um fjárframlög og framkvæmdir, að eins og sest á frv., er þar ekki um neinn yfirlýstan þingvilja að ræða, heldur aðeins það, hvað stj. sé heimilt að gera, ef þingin 1934–1940 telji það ráðlegt.

Annars skildist mér á hv. 4. þm. Reykv., að ekki væri víst, að háskólinn myndi standa þar, sem nú hefir verið ákveðið, því að aðrir staðir væru betur fallnir. Held ég að ekki sé ástæðulaust, úr því að slíkt kemur fram frá þessum stuðningsmanni málsins, að þetta sé athugað betur. Vonandi finnst svo stór blettur, að hægt sé að koma þar fyrir öllum þeim húsum, sem hv. 4. þm. Reykv. telur, að þar þurfi að vera.