26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

ég hygg, að hv. 2. þm. Skagf. hafi að einhverju leyti blandað saman starfrækslunni við þá kostnaðarreikninga, er hann var að tala um í sambandi við Litla-Hraun. Ég gat ekki skilið það öðruvísi og er mér þó það mál nokkuð kunnugt. En þar sem ég vil ógjarnan blanda umr. um það inn í þetta mál, og hv. þm. hefir talað eins og þingsköp leyfa, þá mun ég ekki fara frekar út í það, enda gefst væntanlega tækifæri til að tala nánar um það atriði síðar. Ég skal endurtaka það, sem ég áður sagði, vegna þeirrar fullyrðingar hv. þm. V.-Húnv., að málinu þokaði ekkert áfram, þótt þetta væri samþ. Ég sagði það, og hv. 4. þm. Reykv. hefir einnig lýst því, að við þetta væri þó unnið það tvennt, að hægt væri að semja um landið, ef frv. er lögfest, og að stúdentagarðinum yrði þokað áfram, ef þingið léti á þennan hátt vilja sinn í ljós. Hér er um löggjöf að ræða, sem er sambærileg við ýmsa aðra, sem samþ. er, t. d. brúalög og vegalög. Þar er um fyrirætlanir að ræða, sem ekki komast til framkvæmda fyrr en síðar, eftir því sem fé er veitt til þeirra í fjárl. En kappið við að koma brúm eða vegum inn í þau lög sýnir, að það er álitið mikils virði að hafa lögfest þetta, þó framkvæmdir bíði síðari hentugleika. Ég er sammála hv. þm. um, að nú sé svo mikil óáran, að ekki sé hægt að leggja fé í þessa byggingu að sinni. En þótt óáran sé, má ekki gleyma því, að tvennt er þó leyst með þessu: Það er hægt að semja um lóð við hæfi háskólans, og það er einnig hægt að fara að nota þá peninga, sem stúdentar eiga og bíða aðeins eftir því, að staður fyrir háskólann sé ákveðinn. Þessa tvo möguleika er ekki hægt að eyðileggja, nema frv. sé fellt. Vona ég, að ekki komi til þess. Hitt verður svo mál síðari þinga, hvernig þau geta lagt fram það fé, sem nauðsynlegt er til byggingarinnar.