10.03.1932
Efri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

21. mál, geðveikrahæli

Jón Þorláksson:

Það er sjálfsagt rétt hjá hv. n., að lögin frá 1905 eru orðin mjög úrelt og ófullnægjandi og ákvæði þeirra orðin á eftir tímanum. En mér finnst þó ekki rétt að afnema löggjöf, sem gildir fyrir stóra ríkisstofnun, án þess að, sett sé önnur löggjöf í þeirrar stað. Ég lít svo á, að ríkinu beri í raun og veru að hafa sérstaka löggjöf fyrir hverja þá starfsemi, er það rekur. Það getur ekki talizt rétt og fullnægjandi, að það sé algerlega komið undir fjárlagaákvæðum og framkvæmdarvaldinu, hvernig rekstri þeirra er hagað. Ákvæði fjárl. verða einatt mjög svo takmörkuð viðvíkjandi rekstrartilhögun viðeigandi stofnunar, Þau eru venjulega lítið annað en ákvörðun þeirrar fjárhæðar, sem veitt er til hennar, og sit upphæð skoðast oft sem áætlun. Getur því farið svo, að rekstrartilhögun liggi öll í hendi framkvæmdarvaldsins, þar sem engin ákvæði liggja fyrir um reksturinn frá hálfu löggjafarvaldsins. En svo á ekki að vera í þingfrjálsu landi, sem byggir stjórnarfar sitt á borgaralegum rétti.

Ég hefði kunnað miklu betur við það, að n. hefði beint til stj. tilmælum um undirbúning nýrrar löggjafar um þessar stofnanir, í stað þess aðeins að leggja til, að felld séu úr gildi gömul lög, sem að vísu eru orðin úrelt og ófullkomin, og gefa þar með stj. einveldi um rekstur geðveikrahælanna.

Ég sé mér, af þessum ástæðum, ekki fært að greiða atkv. með þessu frv. Ég er þó ekki á móti því af því, að mig langi neitt til að halda í þessi gömlu og úreltu lög eða sé á neinn hátt annt um þau, ég kann bara ekki við að fella þau úr gildi fyrr en ný lög eru sett í þeirra stað.