12.04.1932
Neðri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

21. mál, geðveikrahæli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það atriði, sem hv. 2. þm. Skagf. drap á, get ég ekki sagt um að svo stöddu, því að það heyrir stjórnarlega undir aðra deild en ég starfa við. — Ég get verið samdóma hv. þm. um það, að ekki sé ástæða til að gera sveitarstjórnunum erfiðara fyrir með geðveika sjúklinga heldur en aðra sjúklinga, en ég vil vara þingið við því að fara inn á þessa braut, því að það getur ekki gengið svo til lengdar, að ríkið reisi hvern spítalann á fætur öðrum og sé svo auk stofukostnaðarins látið sitja uppi með allan rekstrarkostnaðinn. Ríkið hefir reist dýran spítala fyrir þessa sjúklinga — húsið kostaði allt að 600 þús. kr. — og hefir haft þar sjúklinga fyrir daggjald frá kr. 1,50–3,75. Mega sveitarfélögin vel una við þennan velgerning af hálfu ríkisins, og enda óhyggilegt að búa svo að um rekstur spítalanna, þegar ríkið er búið að koma þeim upp, að rekstrarkostnaðurinn lendi allur á ríkissjóði, því að hætt er við, að slíkt geti leitt til þess, að við verðum að hætta hér á miðri braut við að koma upp þeim mannúðarstofnunum, sem þjóðin er í mikilli þörf fyrir að fá, af því að rekstur þeirra verður með þessu móti óbærilegur fyrir ríkissjóð. Í hinni d. er nú verið að ræða eitt slíkt mál, þar sem er stofnun fávitahælis, sem er mjög nauðsynlegt og gott mál, en það eru ekki líkur til þess, að það verði leyst eins fljótt, ef vitanlegt er fyrirfram, að ríkið á að bera allan rekstrarkostnað við þetta fyrirtæki.