19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég held, að það hafi verið óþarfi af hv. þm. Borgf. að gera mikið veður út af því, þó að n. kæmist að þeirri niðurstöðu, að bæjar- og sveitarsjóðir gætu greitt þessar 50 kr. sjálf fyrir birtingu veðurskeyta, sem gert er ráð fyrir í frv., að ríkissjóður greiði. Með því er alls ekki verið að meina mönnum að njóta þeirra framfara, sem í birtingu veðurfregnanna eru fólgnar, því að það er beinlínis sagt, að veðurfregnum skuli útvarpað frá útvarpsstöðinni a. m. k. fjórum sinnum á sólarhring og að fela megi loftskeytastöðinni í Reykjavík að annast útsendingu þeirra að næturlagi, ef það þykir hagkvæmara. Þá er það líka mjög villandi, að ríkissjóður beri engan kostnað af útsendingu skeytanna, þó að þessi litli kostnaður við birtingu þeirra komi á viðkomandi bæjar- og hreppsfélög.

Í þessu sambandi vil ég benda hv. þm. á það, hversu miklu það er dýrara fyrir bændur landsins að fá veðurfregnirnar, þar sem þeir verða sjálfir að kaupa sér útvarpstæki til þess að ná þeim, heldur en þá, sem í þéttbýlinu búa og margir geta verið saman um sama tækið. Það er því ekkert sambærilegt, hvað það er hægara fyrir þorpsbúa að fá veðurfregnirnar heldur en bændurna, enda þótt þeir þurfi að greiða þennan litla kostnað sjálfir. Hér er því á engan hátt verið að draga úr því, að þeir, sem hætta lífi sínu í það að sækja lífsbjörgina í hafið, eins og hv. þm. orðaði það, geti haft það gagn af veðurfregnunum, sem frekast er unnt.

Þá vil ég mótmæla því f. h. n., að hún hafi gert nokkuð til þess að draga úr því öryggi, sem veðurfregnirnar eru fyrir sjómennina, þó að hún hafi gert þær ráðstafanir, sem felast í brtt. hennar.

Hæstv. forsrh. skal ég svara því, að n. hefir ekki borið brtt. þessar undir Fiskifélagið, en síðan n. skilaði áliti sínu, hefir form. Fiskifélagsins mætt á fundum hjá henni viðvíkjandi öðrum málum, og hefir hann ekkert minnzt á brtt. þessar. Er þó svo langt síðan þær birtust, að hann hlýtur að vera búinn að athuga þær. Tel ég því, að hann hafi með þögninni samþ. þær.