07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Sveinn Ólafsson:

Mig furðar á því, að kapp skuli vera á það lagt að leggja fram fé úr ríkissjóði til jafnlítilfjörlegs starfs og það er að hirða fregnir frá útvarpinu. Held ég, að það sé ekki annað en misskilningur, þegar verið er að ota þessari 50 kr. fjárveitingu að sveitar- og bæjarfélögum. Ég hygg, að útvarpstæki muni nú vera orðin mörg í hverri verstöð þessa lands, en kostnaður við birtingu þessara veðurfregna er svo lítill og starfið svo smávægilegt, að óþarfi er að bjóða fram fé til þess. Skilst mér þessi till., að greiða fyrir það að festa upp veðurskeyti, vera einskonar vörn fyrir 5000 kr. fjárveitingu þá, sem Fiskifélag Íslands fékk á síðasta þingi til þess að annast útsendingu fregnanna, er vanhöld reyndust á veðurfregnum frá landssímanum. En nú, þegar útsending er kominn á nýjan rekspöl með daglegu útvarpi veðurfregna, er óþarft með öllu að bjóða þetta fé. Skil ég ekki, að nokkurt sveitar- eða bæjarfélag telji eftir sér að birta veðurfregnir, þar sem 4. eða 5. hver maður á víða kost á því að hlusta á þær frá útvarpsstöðinni.