10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Frsm. sjútvn. Nd. (Bjarni Ásgeirsson):

ég skal vera stuttorður. Það er búið að taka fram hér ýms þau rök, er bera uppi skoðun Nd., auk þess sem áður var búið að ræða þau í þeirri deild. Það, sem sjútvn. Nd. átti við, er hún taldi rétt, að sveitarfélögin kosti birtingu á veðurfregnum útvarpsins, hver hjá sér, án styrks úr ríkissjóði, var, að það væri til samræmis við það, sem einstakir bændur verða að gera úti um allt land. Þeir verða m, a. vegna veðurfregnanna, sem þeim líka eru nauðsynlegar atvinnu sinnar vegna, að kosta tækin að öllu og taka móti fregnunum. Ætti þó að vera margfalt ódýrara að framkvæma slíkt þar, sem mörg hundruð manna geta notað eitt og sama móttökutækið við móttöku veðurskeytanna, eins og er í sjávarþorpum og kauptúnum. Þetta segir sig sjálft. — Við lítum líka svo á, að þar sem ríkið kostar samningu og útvörpum veðurfregna, þá sé sjávarþorpunum ekki ofvaxið að taka á móti þeim og festa þær upp þar, sem íbúar þorpsins eiga greiðan aðgang að því að sjá þær. Mér finnst þetta því svo mikið smámál fyrir sjávarþorpin, að óþarft hafi verið að stefna málinu fyrir Sþ. þess vegna.

Hv. 2. þm. S.-M. færði það fram sem rök með sinni brtt., að hér væri um skyldukvöð að ræða á þau sveitarfélög, þar sem á sjó væri farið. En því er þó eigi svo varið undantekningarlaust, því að samþykkt þarf fyrir því af meiri hl. atkvæðisbærra manna á hverjum stað, hvort birta skuli veðurfregnir opinberlega. Þetta er skýrt tekið fram í frv.gr. og er því í vissu falli hér um heimildarlög að ræða. Með slíkri samþ. leggja þau á sig kvöð, sem í engan máta er ósanngjörn, þar sem hún er til öryggis og hagræðis fyrir íbúana. Mér finnst því réttlátt, að þessum kostnaði sé svo skipt, að ríkið leggi til veðurfregnirnar, en þeir, sem þeirra njóta, kosti birtingu þeirra.