10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Pétur Ottesen:

Ég vil benda hv. þm. Mýr. á það, að sá samanburður, er hann gerði milli þessa, sem hér um ræðir, og sveitaheimila, á alls ekki við. Hér er ekki um neinn styrk til tækja að ræða, heldur einungis til þess að taka á móti veðurfregnum á tilsettum tíma og sjá um birtingu þeirra á hentugum stöðum, þar sem almenningar getur án mikillar fyrirhafnar att aðgang að því að sjá þær. Samanburður hv. þm. var of einhliða. Hann talaði um þetta á þeim grundvelli, að ekki væri nema um veðurfregnir að ræða á þeim sveitaheimilum, sem hafa útvarpstæki. En þetta er vitanlega alger misskilningur. Þar er um miklu fleira að ræða, sem heimilin hafa bæði gagn og gaman af, svo sem fréttir, innlendar og útlendar, fyrirlestrar, upplestrar, söngur og hljóðfærasláttur og það allt annað, sem hægt er að bjóða hér á landi. En skv. þessu frv. er einungis um það að ræða að auðvelda aðgang sjómanna að veðurfregnum, sem eru til öryggis lífi þeirra og atvinnu. Sjómennirnir hafa margir ekki tæki. Og þótt þeir hafi þau, þá er aðstaða þeirra sú, að þeir hafa þeirra ekki not í þessu augnamiði, þar sem þeir á vertíðinni eru oftast og stundum mestallan tímann á sjó úti og geta því ekki sjálfir annazt móttöku veðurfregnanna. Ef hv. sjútvn. hefir byggt afstöðu sína til málsins á þessu, þá hefir hún farið á tæpu vaði.

Hv. 1. þm. S.-M. var nú svo varkár, að hann taldi stórhættulegt að hætta ca. 3000 kr. til þessa á ári. Þegar miðað er við sumar aðrar till. hans, þótt þær að vísu séu ekki verri en þær, sem sumir aðrir koma með, þá kemur þessi sparnaðartill. hans undarlega fyrir sjónir. Þar sem sveitarfélögin eiga að leggja fram helming kostnaðar, þá er ég ekkert hræddur um, að þetta ákvæði verði misbrúkað Ég verð líka að segja, að mér þykir hér koma fram undarleg stefnubreyt. í þessu máli, því að fyrir 1–2 árum samþ. Alþ. að veita 5000 kr. til birtingar á veðurfregnum í sama augnamiði og hér um ræðir. Fiskifélaginu var þá falið að semja við menn í verstöðvunum um þetta, og var þeim greidd ofurlítil þóknun fyrir það. hér er því um algerða stefnubreyt. að ræða, ef brtt. hv. sjútvn. Ed. verður ekki samþ. — Ég verð líka að segja, að það væri undarlegt, ef þingið vildi ekki offra sem svarar 3000 kr. á ári til þeirra manna, er fela því að fara með og ráðstafa drjúgum hluta af aflafé sínu á hverju ári. Væri slíkt blettur, sem ég vona, að hv. Alþ. vilji ekki setja á sig. Hv. þm. Mýr. vildi rengja það, að með þessu væri lögð skyldukvöð á sveitarfélögin. Þetta stendur þó skýrt í frv.gr., að svo sé. Þar er skýrt fram tekið, að veðurfregnir skuli vera birtar þar, sem sjóferðir eru hættulegar. Fiskifélagið hefir þegar ákveðið marga slíka staði, þar er því skylt að birta veðurfregnir. Það væru því eingöngu einhverjir aðrir staðir, þar sem heimildarakvæðin kæmu til greina. Veit ég þó satt að segja ekki, hverjir þeir staðir væru, sem hættulausir gætu talizt, þar sem á annað borð er farið á sjó og fiskveiðar stundaðar. Er og engin hætta á, að þetta verði gert að gamni sínu, þar sem sveitarstjórnir verða ávallt að leggja minnst helming fram á móti ríkisstyrknum.

Hér er um svo lítil fjárútlát að ræða, en hinsvegar verulegt tryggingaratriði, að það getur varla verið mikið deilumál. Ég veit líka, að till. hv. Ed. verður samþ. Í Nd. var þetta ákvæði fellt úr frv. fyrir sérstakt atvik og raunverulegur vilji Nd. kom þar ekki fram.