10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Pétur Ottesen:

Út af því, sem hv. þm. Ak. sagði um það, að engin rödd hefði komið um það frá verstövunum, að óskað væri eftir þessum styrk, vil ég benda á það, að sjómennirnir hafa yfirleitt annað að gera á vetrarvertíðinni heldur en að fylgjast með hverju einu, sem gerist hér á þingi.

Þess vegna er eðlilegt, að ekki hafi heyrzt neinar raddir frá heim um þetta atriði, og þó ekki síður af hinu, að þeir hafa alls ekki látið sér detta í hug, að þeir yrðu sviptir heim stuðningi, sem Alþingi hefir áður ákveðið að veita til þess, að veðurfregnirnar geti komizt fyrir sem flestra augu. Hitt er það, að Fiskifélag Íslands, sem telja verður, að hér komi fram fyrir hönd sjómannanna, hefir gengið ríkt eftir því, að þessi stuðningur verði ekki afnuminn.

Ennfremur talaði hv. þm. um kostnað, sem af því leiddi fyrir ríkissjóð að senda veðurskeytin út. En þar er ekki um neinn raunverulegan kostnað að ræða fyrir ríkið. Sending veðurskeytanna er einn liður í hinni almennu útvarpsstarfsemi, sem allir útvarpsnotendur hvarvetna á landinu verða að greiða fyrir 30 kr. á ári.

Hv. þm. var að tala um einhvern minnisvarða, sem hv. sjútvn. hefði reist sér; hann átti víst við hv. sjútvn. Ed., en ég held það sé hv. sjútvn. Nd., sem reist hefir sér minnisvarða í þessu máli, með því að fara í því einu eftir till. sjútvn. Ed. að láta standa í frv. ákvæði, sem hún telur ekki annað en hortitt, en fella aftur á móti niður úr frv. önnur ákvæði, sem allmikils var um vert fyrir sjómannastétt landsins.

Annars vil ég vekja athygli á, að það eru í mörgum tilfellum fleiri, sem njóta góðs af birtingu veðurfregnanna, heldur en gjaldendur viðkomandi sveitarfélags, sem eftir till. hv. sjútvn. Ed. eiga að bera allan kostnaðinn. Það eru vitanlega margar verstöðvar hér á landi, sem menn sækja til víðsvegar að. Má t. d. í því sambandi benda á Hornafjörð, sem menn sækja til af öllum Austfjörðum. Sama er að segja um verstöðvarnar hér við Faxaflóa; þar eru á vertíðinni menn hvarvetna af landinu.

Ennfremur má benda á, að eins og hv. 1. þm. Reykv. vek að, þá er hér um að ræða einn lið í slysavarnaráðstöfunum þjóðarinnar. Til þeirra er varið ærnu fé, og það er í beinu ósamræmi við þá stefnu, sem Alþingi hefir áður tekið upp í þessum efnum, ef það vill ekki verja þeirri litlu upphæð, sem hér er um að ræða, til þess að auka öryggi þeirra manna, sem hætta daglega lífi sínu við að sækja gull í greipar Ægis.

Hv. 1. þm. S.-M. talaði um, að í fleiri tilfellum en þessu væru skyldur lagðar á sveitarfélögin án þess að stuðningur frá ríkinu kæmi á móti; nefndi hann þar til fátækralögin. En ég vil benda honum á, að ríkið tekur allverulegan þátt í framfærslukostnaðinum. Þegar kostnaður við veru þurfalinga á sjúkrahúsum fer fram úr vissu takmarki, greiðir ríkissjóður það, sem umfram er. Og ríkið elur algerlega önn fyrir öllum berklasjúklingum, sem fá hælisvist. Auk þess liggja nú fyrir þinginu till. í þá att, að ríkið taki beinlínis á sig nokkuð af fátækraframfærslunni hjá þeim sveitarfélölgum, sem mikinn framfærsluþunga hafa.

Hv. þm. kemst ekki framhjá því, að með þessu frv., eins og hann vill að frá því sé gengið, er verið að leggja skyldu á sveitarfélögin án þess að nokkur réttindi eða stuðningur af hálfu ríkisins fylgi.