24.02.1932
Neðri deild: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

41. mál, ríkisábyrgð á innstæðufé Útvegsbanka Íslands

Magnús Guðmundsson:

ég geri ráð fyrir því, að það fari á þann veg, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ekki verði reynt að hindra, að þetta frv. verði að lögum í dag.

Ég get fyrir mína og Sjálfstæðisflokksins hönd lýst yfir því, að þetta frv. kemur okkur alls ekki á óvart. Árið 1930, þegar bankinn var endurreistur, flutti ég og hv. þm. G.-K. till. um, að ríkið tæki ábyrgð á sparifé bankans. Við lítum svo á, að úr því að við hliðina á þessum banka væru aðrir bankar, sem hefðu þessa ábyrgð ríkissjóðs fyrir innstæðunum, myndi sparisjóðsféð að sjálfsögðu renna þangað. Þetta sögðum við þá, og einnig árið 1928, þegar fyrst var ákveðið, að ríkisábyrgð skyldi vera fyrir innlansfé í Landsbankanum. Þessar spár hafa nú rætzt, og hvað mig snertir, finnst mér þetta ekki nema eðlileg rás viðburðanna, að við nú stigum þetta spor.

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál. Ég vil minna á það, hversu geysileg ógætni ýmsum hv. þm. þótti það, er við, ég og hv. þm. G.-K., skyldum leyfa okkur að stinga upp á öðru eins og þessu. En orsökin var einungis sú, að við sáum fram í tímann, hvað verða myndi í þessum málum. Það gæti verið freisting að rifja upp í þessu sambandi ýms þau ummæli, sem höfð hafa verið um þetta mál síðan, en ég ætla samt að sleppa því í þetta skipti, þar sem ég vil ekki hindra það, að ósk sú, sem hæstv. fjmrh. lét í ljós, geti rætzt.

Það er kunnugt, að sú er og hefir verið stefna Sjálfstæðisfl., að það sé með öllu rangt, að ábyrgð ríkissjóðs sé á innlansfé í banka, en þegar svo er komið, að 2 af bönkum landsins hafa þessa ábyrgð, þá verður hinn 3. einnig að fá hana, ef hann á að geta lifað.

Til þess að sýna hér afstöðu Sjálfstæðisfl. yfirleitt í málinu, skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp ályktun, sem samþ. var á flokksfundi Sjálfstæðisfl. í gærkvöldi, reyndar ekki einróma, en ég kæri mig ekki um að skýra frá því, hversu margir voru með henni og á móti; það kemur fram við atkvgr. um þetta mál í dag. Ályktunin hljóðar svo:

„Sjálfstæðisfl. fellst á till. stj. um, að ríkissjóður taki ábyrgð á innstæðufé í Útvegsbankanum, þó aðeins meðan samskonar ábyrgð er á innstæðufé í öðrum bönkum landsins, en telur hinsvegar, að allar slíkar ábyrgðir ættu að falla niður svo fljótt, sem auðið er, og samtímis“.

Það gæti verið spurning um það, hvort við sjálfstæðismenn ættum ekki að koma með brtt. í þessa átt, en ég þykist vita, að hún myndi verða felld, og auk þess er það svo eins og ég tók fram, að ég fyrir mitt leyti vil ekki, að nokkuð verði gert til þess að tefja málið, og mun ég því ekki bera slíka till. fram. Hitt vildi ég láta koma fram, hver er stefna míns flokks í þessu máli.

Ég skal svo ekki segja fleira nema sérstakt tilefni gefist.